KA1 Hleðslumótsmeistari 2012!

KA1 - Hleðslumótsmeistarar 2012. Mynd: Þórir Tryggvason.
KA1 - Hleðslumótsmeistarar 2012. Mynd: Þórir Tryggvason.
KA1 sigraði Þór1 í úrslitaleik Hleðslumótsins í knattspyrnu í Boganum í dag með þremur mörkum gegn tveimur.

Byrjunarlið KA-manna í dag var þannig skipað að í markinu var Sandor Matus, miðverðir Gunnar Valur Gunnarsson og Elmar Dan Sigþórsson. Bakverðir Ævar Ingi Jóhannesson (hægra megin) og Jakob Hafsteinsson. Á miðjunni þeir Þórður Arnar Þórðarson, Brian Gilmour og Jóhann Helgason, á köntunum Guðmundur Óli Steingrímsson og Bjarki Baldvinsson og fremstur Hallgrímur Mar Steingrímsson.

Þórsarar byrjuðu leikinn með stífri sókn, en úr fyrstu sókn KA-manna skoraði Ævar Ingi Jóhannesson glæsilegt mark - staðan orðin 1-0 eftir tæplega tveggja mínútna leik. Adam var þó ekki lengi í Paradís. Á sjöundu mínútu var Janez Vrenko skyndilega einn og óvaldaður í vítateig KA og átti ekki í erfiðleikum með að setja boltann í markið. Staðan orðin 1-1.

Á 38. mínútu átti Sandor útspark, varnarmaður Þórs missti af boltanum og Hallgrímur Mar var skyndilega einn á auðum sjó og setti boltann laglega í hornið. Staðan orðin 2-1 og þannig var hún í hálfleik.

Fyrri hálfleikur einkenndist af baráttu, sem kom niður á gæði knattspyrnunnar. KA-menn reyndu meira að spila boltanum og voru þegar á heildina er litið sterkari aðilinn í hálfleiknum.

Í hálfleik fór Elmar Dan út af og Haukur Hinriksson kom inn í miðvörðinn. Sömuleiðis fór Ævar Ingi út af og inn kom Jón Heiðar Magnússon í vinstri bakvörðinn. Jakob Hafsteinsson færði sig yfir í hægri bakvörð.

Þórsarar komu grimmir til leiks í síðari hálfleik og pressuðu KA-liðið framarlega. Fyrsta korterið fór leikurinn meira og minna fram á vallarhelmingi KA. Pressa Þórsara skilaði þeim marki á 59. mínútu þegar Sveinn Elías Jónsson vann sig laglega í gott skotfæri í vítateignum.

KA-menn gerðu skiptingu á 69. mínútu þegar Bjarki Baldvinsson fór út af en Jframherjinn Jóhann Örn Sigurjónsson kom inn á í hans stað. Jafnframt færði Hallgrímur Mar sig út á vinstri kantinn.

Aftur gerði KA skiptingu á 81. mínútu þegar Davíð Rúnar Bjarnason kom inn á miðjuna í stað Jóhanns Helgasonar.

Fjölmargir áhorfendur í Boganum voru farnir að búa sig undir vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit í leiknum þegar KA-menn geystust í sókn á 88. mínútu. Hallgrímur Mar náði glæsilegu skoti frá vinstri - stöngin inn!

Þórsarar lögðu allt í sóknina síðustu mínúturnar, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Niðurstaðan því 3-2 fyrir KA í leik, sem seint fer í sögubækurnar fyrir fallega knattspyrnu. KA-menn ívið sterkari í fyrri hálfleik, en Þórsarar í þeim seinni.

KA-menn lönduðu þarna fyrsta bikarnum sem er í boði  í ár og vörðu titilinn frá mótinu í fyrra.

Um næstu helgi spilar KA2 við Þór2 um 7. sætið í Hleðslumótinu en síðan spilar KA sinn fyrsta leik í Lengjubikarnum við úrvalsdeildarlið Stjörnunnar um aðra helgi - sunnudaginn 19. febrúar kl. 16 í Boganum.