Umfjöllun: KA - Leiknir

KA-menn tóku á móti Leiknismönnum í dag í fínu veðri á Akureyrarvellinum en skemmst er frá því að segja að strákarnir völtuðu yfir Leiknismennina og unnu að lokum 6-0 sigur.

KA 6 - 0 Leiknir R.
1-0 Guðmundur Óli Steingrímsson ('41)
2-0 Andri Fannar Stefánsson ('64)
3-0 Dean Martin ('66)
4-0 Dean Martin ('72)
5-0 Almarr Ormarsson ('88)
6-0 Almarr Ormarsson ('90)

Umfjöllun á Fótbolta.net
Leikskýrslan
Deildin á KSÍ.is

Sandor

Haukur Hei. - Norbert - Janez - Ingi
Túfa
Dean M. - Arnar M. - Guðmundur Ó. - Steinn G.

Almarr (F)

Varamenn: Baldvin Ólafsson, Andri Fannar(Guðmundur Óli, 58mín), Orri Gústafsson, Sveinn Elías(Dean M., 77mín), Þórður Arnar(Arnar Már, 84mín).

Ein breyting var á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Breiðablik. Dean kom inn fyrir Svein á hægri kantinn. Það voru fínar aðstæður til knattspyrnuiðkunar í dag og virkaði völlurinn í góðu ásigkomulagi.

Gestirnir í Leikni byrjuðu leikinn betur og virtust líklegri til að skora. Fyrsta færið kom á 6. mínútu þegar fyrirliði Leiknismanna Vigfús Arnar Jósepsson komst í fínt færi en Sandor sá við honum. Á 28. mínútu skall hurð næri hælum á marki KA, þegar Leiknismenn tóku aukaspyrnu snöggt út á velli og boltinn barst til Fannars Þórs Arnarssonar sem skaut föstu skoti í stöngina.

Það var ekki fyrr en á 41. mínútu sem dró verulega til tíðinda. Þá kom Dean Martin upp kantinn og gaf fyrir þar sem varnarmanni Leiknis urðu á mistök og Guðmundur Óli nýtti sér það og afgreiddi boltann fram hjá markverði gestanna. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik og máttu KA prísa sig sæla að leiða í hálfeik.

Síðari hálfleikur byrjaði rólega og ekki var mikið um færi hjá liðunum. En á 64. mínútu komust KA menn í 2 - 0. Það gerði Andri Fannar eftir að hafa leikið á eina þrjá varnarmenn Leiknis og spilað stutt samspil með Almarri og þvælt markmann Leiknis og skorað í autt markið. Virkilega flott mark og Andri fór framhjá varnamönnum Leiknis eins og um keilur væri að ræða.

Strax í næstu sókn átti Almarr laglega sendingu inn á Inga Frey sem var einn á móti markmanni Leiknis en lét verja frá sér. Og aðeins mínútu síðar átti Steini Gunn góðan sprett upp að endamörku og náði að koma boltanum fyrir þar sem Dean Martin fékk boltann á teigslínu og hamraði boltann fallega í nær hornið. Markmaður Leiknis átti aldrei möguleika í boltann.

Á 72. mínútu kom síðan löng sending á Dean Martin og hann tók boltann með sér upp kantinn og virtist ætla að gefa fyrir en skaut hnitmiðuðu skot yfir Val Gunnarsson markmann Leiknismann og KA komið 4 - 0.

KA menn voru ekki á þeim buxunum að láta kyrrt við liggja heldur sótt bara en meira að marki Leiknis. Á 88. mínútu spilaði liðið boltanum heillengi innan liðsins sem endaði með því að Andri Fannar átti laglega sendingu inn á Almarr sem skoraði af miklu öryggi, en hann var að skora sitt fyrsta mark í sumar. Skömmu síðar komst Almarr einn í gegn eftir mistök hjá varnarmanni Leiknis og skoraði sjötta mark dagsins og fagnaði því á skemmtilegan hátt. Almarr var síðan nálægt því að skora sitt þriðja mark í leiknum en brenndi af og lokatölur því 6 - 0.

Leikurinn í dag var klárlega sá besti hjá liðinu í sumar. Það var virkilega gaman að sjá til liðsins í dag, leikgleðin skein úr hverju andliti og voru menn innstilltir á það að koma þremur stigum í hús. Það tókst og gott betur en það. Ekki er hægt að velja einhvern einn sem stóð upp úr í dag, þetta var sigur liðsheildarinnar en þó var mjög gaman að sjá innkomu Andra Fannars sem gjörbreytti leiknum og átti hann stórkostlegan leik.

Næsti leikur er á útivelli en þó þurfum við ekki að fara langt. Því að hann er gegn nágrönnum okkar í Þór. Hann verður á föstudaginn 27. júní nk. klukkan 19.15. Það verður leikur upp á líf og dauða.

Myndir: Úr leik liðanna í fyrra: Almarr skoraði tvö í dag og hér er hann í baráttunni við Leiknismenn, Janez lætur menn ekki fara fram hjá sér. Fagnað í seinasta heimaleik.

- Aðalsteinn Halldórsson.