Umfjöllun: Magni - KA

Í gærkvöldi lögðu KA-menn land undir fót og brunuðu alla leið til Grenivíkur þar sem þeir áttu leik gegn heimamönnum í Magna í 2. umferð VISA-bikarsins.

Magni Grenivík 0 - 3 KA
0-1 Norbert Farkas
0-2 Norbert Farkas
0-3 Arnar Már Guðjónsson
Rautt spjald: Hjalti Már Hauksson (KA), Kristófer Jónasson (Magni).

Sandor

Haukur Hei. - Þórður - Elmar(F) - Hjalti

Dean M. - Guðmundur Ó. - Norbert - Steinn G.
Arnar Már
Janez

Varamenn: Sveinn Elías Jónsson, Baldvin Ólafsson(Steinn G), Andri Fannar Stefánsson, Almarr Ormarsson(Dean M), Srdjan Tufegdzic(Haukur H).

Það voru kjöraðstæður til að leika fótbolta á Grenivík í gær, eða allt að því. Veðrið var fínt, stillt og þokkalega hlýtt en völlurinn sjálfur var ekki í sínu besta standi. Það voru þó tvö mörk sitthvoru megin á vellinum og KA-menn komu boltanum þrisvar í netið á meðan Magnamenn gerðu það aldrei, og fótbolti er einfaldur, liðið með fleiri mörk skoruð sigrar. Það er eiginlega lýsandi dæmi fyrir leikinn í gær, KA-menn komust ágætlega frá leiknum og eru í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslitin í dag.

Leikurinn hófst rólega og bæði lið að finna sig á vellinum sem var eins og áður segir ekki í sínu besta standi. KA-menn voru þó sterkari og náðu nokkrum hættulegum krossum þar sem Dínó var fremstur í flokki.

Það bar ávöxt fljótlega þegar Ungverjinn Norbert Farkas skoraði með skalla í fjærhornið eftir aukaspyrnu frá hægri en þess má til gamans geta að það voru þrír Ungverjar að spila í gær, Norbert, Sandor og svo Laszlo Szilagyi í Magnaliðinu.

Annað markið kom ekki löngu síðar og það var Norbert sem aftur var á ferðinni. Aftur var það þjálfari KA manna sem var með stoðsendinguna, nú úr horni, þar sem Nobbi var frekastur inn í vítateig andstæðinganna og náði gáðu vinstri-fótar skoti sem fór á milli lappa Atla í markinu og inn.

Þriðja markið kom svo líka í fyrri hálfleiknum en þá var eins og svo oft áður fyrirgjöf frá hægri, hún fór yfir allan pakkann en á fjærstönginni náði Steinn boltanum og lagði hann út á Arnar Má sem skoraði með föstu hnitmiðuðu skoti og staðan nú orðin vænleg, 3-0.

Staðan 3-0 í hálfleik og KA-menn í góðum málum. Í síðari hálfleik slökuðu KA-menn á og hleyptu Magnamönnum of mikið inn í leikinn. Sandor þurfti að taka á honum stóra sínum eftir gott skot og þá má Elmar Dan teljast heppinn að hafa ekki fengið að líta rauða spjaldið þegar hann tæklaði sóknarmann Magna sem var nánast kominn einn í gegn en Þórður Arnar var þó kominn til baka svo ætli það hafi ekki verið réttur dómur - þrátt fyrir mikil mótmæli heimamanna.

KA-menn fengu auðvitað sín færi í seinni hálfleiknum líka þrátt fyrir að hann hafi verið daprari en þeir náðu ekki að nýta sér þau. Þegar um tíu mínútur voru til leiksloka fékk Hjalti Már að líta beint rautt spjald, það var sókn hjá Magnamönnum sem endaði með háum bolta sem Sandor greip en Kristófer Jónasson leikmaður Magna virtist eitthvað stugga við KA-manni sem féll í teignum og Hjalti var ekki sáttur með framgöngu Kristófers og ýtti í hann svo hann féll með tilþrifum. Jan Eric Jessen dómari leiksins sýndi báðum leikmönnum rauða spjaldið, réttilega.

Í heildina séð komust KA-menn ágætlega frá sínu þrátt fyrir að hafa ekki sýnt neinn stjörnuleik í seinni hálfleik en fyrri hálfleikurinn var mun betri. Við misstum Arnar Má reyndar af velli meiddan og Hjalta Má augljóslega í bann en annars var þetta vel unnið og KA-menn komnir áfram í 32-liða úrslitin.

Næsti leikur er í Njarðvík á föstudaginn kemur, kl. 20:00 og hvetjum við alla KA-menn fyrir sunnan til að mæta á leikinn.

Myndir:
Vinir Sagga létu sig auðvitað ekki vanta og voru í góðumgír, að vanda. - Símon Símonarson sem lék á árum áður með KA reynir að skalla boltann en hann ratar beint á Elmar Dan. - Hjalti Már í báráttunni en hann var rekinn í sturtu síðar í leiknum. - Strákarnir fagna að leik loknum.

Þónokkrar myndir úr leiknum eru komnar inn á síðuna, þær má sjá með því að fara á myndasíðuna eða bara smella hér.