Kjarnafæðimótið: Flottur sigur á Dalvík/Reyni

Jón Heiðar átti magnaða innkomu og skoraði 1 og lagði upp 2.
Jón Heiðar átti magnaða innkomu og skoraði 1 og lagði upp 2.
KA mætti Dalvík/Reyni í 3.umferð Kjarnafæðismótsins í Boganum kl 15:15 í dag. Byrjunarlið KA var svipað liðinnu sem vann KF um síðustu helgi.

Sandor stóð í markinu, Ómar hægri bakvörður, Atli Sveinn og Haukur miðverðir og Jakob vinstri bakvörður. Á miðjunni voru þeir Davíð Rúnar og Bjarki Baldinvins með Hallgrím Mar þar fyrir framan. Ívar Guðlaugur og Orri Gústafs voru á köntunum og Fannar Freyr fremstur. Varamenn voru: Steinþór (m), Kristján Freyr(Bjarki), Aci (Ómar), Ívar Sigurbjörnsson (Ívar Guðlagur), Gauti Gautason (Haukur), Gunnar Már (Davíð), Gunnar Örvar (Fannar Freyr), Jón Heiðar (Orri).

Strax frá fyrstu mínútu tóku KA menn yfirhöndina og pressuðu Dalvíkinga hátt og það skilaði sér í marki strax á 4.mínútu þegar Orri Gústafs skoraði laglegt mark eftir fallega vippu innfyrir vörn Dalvíkur frá Davíði Rúnari. Eftir markið hélt pressa KA áfram og héldu þeir boltanum gríðarlega vel og náðu upp fallegu spili trekk í trekk og náðu að skapa sér fín færi án þess þó að nýta þau, þangað til á 15.mínútu þegar Hallgrímur Mar átti flotta fyrirgjöf á Ívar Guðlaug sem tók boltann niður og náði fínu skoti á markið og framhjá markverði Dalvíkur og KA komið í 2-0.

KA minnkaði aðeins þrýstinginn á vörn Dalvíkur eftir markið og færðu sig aðeins aftar en héldu boltanum vel og gáfu Dalvíkingum engin færi á sér. Á 33.mínútu varð KA fyrir áfalli þegar Bjarki Baldvinsson meiddist eftir samstuð og fór af velli, ekki var þó um alvarleg meiðsli að ræða en mikið áfall þar sem Bjarki var búinn að spila eins og Xavi inná miðjunni að þessum tímapunkti.

Fyrri hálfleikur fjaraði út án þess að nokkuð markvert gerðist. 

Seinni hálfleikur var heldur rólegri og Dalvíkingar færðu sig framar á völlinn og náðu nokkrum sinnum að valda usla innan teigs eftir hornspyrnur en tókst þó ekki að ógna marki KA af neinu ráði. 

En þá var komið að Jón Heiðari sem kom inná sem varamaður og í hans fyrstu snertingu átti hann skalla innfyrir á Hallgrím sem, þrátt fyrir þröngt færi, kom skoti að marki og inn fór boltinn þrátt fyrir að varnarmaður Dalvíkur hafi verið í boltanum og KA því komið í 3-0 eftir 55.mínútur.

Jón Heiðar var ekki hætttur go á 76.mínútu fékk hann boltann inní teig eftir hornspyrnu, fyrsta skot hans fór í varnarmann en hann tók frákastið og smellti boltanum uppí þaknetið og staðan orðin 4-0 þegar korter var til leiksloka.

Það hægðist töluvert á leiknum eftir þetta og Dalvíkingar fóru að þreytast og í kjölfarið opnaðist vörn þeirra trekk í trekk en KA menn náðu þó ekki að nýta sér það nógu vel. Áfram hélt þó Jón Heiðar sem kórónaði frábæra innkomu sína með flottri fyrirgjöf á pönnuna á Gunnari Örvari sem átti ekki í vandræðum með að skalla boltann í markið og kom þaannig KA í 5-0 á 85.mínútu.

Lítið markvert gerðist eftir fimmta markið og bæði lið biðu þess að Þóroddur Hjaltalín flautaði til leiksloka sem hann gerði þegar 2 mínútu voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og flottur 5-0 sigur staðreynd.

Mjög jákvæður leikur hjá KA þar sem allir leikmenn spiluðu vel og yfirvegað. Boltinn gekk vel innann liðsins og mjög lítið um misheppnaðar sendingar og menn gáfu fá færi á sér. Atli Sveinn spilaði eins og sannkallaður herforingi í vörninni og bar fyrirliðabandið með sóma, Atli tapaði ekki návígi í leiknum og klikkaði ekki á sendingu sem er að mati síðuritara nokkuð vel að verki staðið. Davíð Rúnar og Bjarki voru hreint út sagt frábærir á miðjunni í fyrri hálfleik og sáu til þess að boltinn rúllaði vel á milli manna og brutu sóknarleikinn vel upp með flottum sendingum.

Gunnar Már oft kenndur við Giggs var einnig mjög flottur á miðjunni í seinni hálfleik og skilaði sínu hlutverki án mistaka. Hallgrímur Mar spilaði bara sinn leik fremstur á miðjunni og var eins og búast má við flottur í sínu hlutverki og var óheppinn að skora ekki mörk. Fannar Freyr hefur smollið vel inní liðið í vetur og leikið frábærlega og það var engin undantekning þar á í dag en Fannar er nautsterkur og lætar varnarmenn vel hafa fyrir sér, hann hefði þó mátt skora í fyrri hálfleik þegar hann fékk frábæra sendingu inní teig en brást bogalistinn.

Aðrir leikmenn skiluðu sínum hlutverkum vel og var lítið um mistök eins og fyrr segir. Til gamans má geta að Gauti Gautason og Ívar Sigurbjörnsson komu báðir inná í leiknum en þeir eru fæddir 1996, lítið reyndi á Gauta en Ívar kom með mikinn kraft á kanntinn og er vert að fylgjast með honum á næstu árum sem og Gauta.

KA með 9 stig eftir 3 leiki jafn mikið og Þórsarar en KA með betra markahlutfall og situr því á toppi deildarinnar þegar mótið er hálfnað. KA 2 situr í 4.sæti með 3 stig eftir 3 leiki.

Næsti leikur er á miðvikudaginn þegar KA tekur á móti KA 2 í vonandi hörkuleik kl 20:00 í Boganum.