Knattspyrnuskóli Arsenal á KA svæðinu næsta sumar

Paul Shipwright f.h. Arsenal og Björg Unnur Sigurðardóttir form. yngriflokkaráðs KA skrifa undir sam…
Paul Shipwright f.h. Arsenal og Björg Unnur Sigurðardóttir form. yngriflokkaráðs KA skrifa undir samninginn í dag.
Yngriflokkaráð og knattspyrnuskóli Arsenal, Arsenal soccer school, hafa samið um að í júní næsta sumar verði Arsenal með 5 daga námskeið á KA svæðinu. Skrifað var undir samning þess efnis í dag, 20. október. Skólinn verður fyrir iðkendur í 5., 4. og 3. flokki og að sjálfsögðu bæði fyrir stráka og stelpur.

Einungis eru 200 pláss í boði. Skólinn verður opinn krökkum af öllu landinu á meðan pláss leyfir.
Arsenal soccer school mun senda 4 þjálfara sem munu hafa yfirumsjón með námskeiðinu en þeim til aðstoðar verða þjálfarar frá bæði KA og Þór. Auk þess munu margir gestaþjálfara kíkja í heimsókn, s.s landsliðþjálfararnir Sigurður Ragnar og Ólafur Jóhannesson, þjálfararnir Þorvaldur Örlygsson og Ólafur Kristjánsson auk Arons Einars Gunnarssonar, atvinnumanns hjá Coventry.

Yngriflokkaráð er að sjálfsögðu í skýjunum yfir þessum samningi og mikil gleði ríkjandi.
En svona verkefni gengur ekki upp nema með aðstoð góðra aðila. Norðlenska, Ölgerðin, Íslensk verðbréf, Sportver og Hótel KEA styrkja knattspyrnuskólann á ýmsan hátt og þökkum við þeim kærlega fyrir góðar viðtökur.

Knattspyrnuskóli Arsenal er í fremstu röð á Englandi og þar ræður fagmennskan ríkjum. Skólinn hefur verið starfræktur frá árinu 1985 og á orðið í nánu samstarfi við fjölmarga aðila á Bretlandseyjum og í öðrum löndum. Þetta er í fyrsta skipti sem skólinn er með námskeið hér á landi.

Í grunninn leggur skólinn áherslu á rétt hugarfar knattspyrnukrakka innan jafnt sem utan vallar. Að þáttakendur leggi sig fram í æfingum og í leikjum og beri virðingu fyrir samherjum, andstæðingum, þjálfurum og dómurum. Áhersla er lögð á fjölbreyttar æfingar, þar sem tækniæfingar eru ekki síst í forgrunni, rétt mataræði o.f.l. Þá er undirstrikað að knattspyrna er hópíþrótt og hver leikmaður er jafn mikilvægur í liðinu. En umfram allt sé knattspyrnan skemmtileg íþrótt og Knattspyrnuskóli Arsenal leggur ríka áherslu á að þáttakendur hafi gagn og ekki síður gaman af því að taka þátt.

Í byrjun desember næstkomandi verður byrjað að skrá þáttakendur á námskeiðið á Akureyri. Tilhögun skráningar verður nánar kynnt og auglýst síðar.