Stefnt er að því að Fótboltaskóli Grétars Rafns Steinssonar, Bolton og Vífilfells verði með fimm daga námskeið á Akureyri
dagana 9. til 13. júní nk.
Um er að ræða nýjan fótboltaskóla sem Grétar Rafn, leikmaður Bolton Wanderers og íslenska landsliðsins, hefur sett á stofn og mun
einbeita sér að kennslu efnilegra fótboltakrakka á landsbyggðinni. Til liðs við sig hefur hann fengið fjóra margreynda unglingaþjálfara
frá Knattspyrnuakademíu Bolton, félagi sínu á Englandi, sem munu annast þjálfunina auk þess sem Grétar Rafn mun að
sjálfsögðu leggja sín lóð á vogarskálarnar.
Fyrsta námskeið Fótboltaskóla Grétars Rafns, Bolton og Vífilfells verður á Siglufirði í fyrstu viku júní fyrir krakka
í Fjallabyggð – Siglufirði og Ólafsfirði – en síðan er sem sagt stefnt að því að skólinn verði með fimm daga
námskeið á Akureyri – frá mánudegi til föstudags – og fer kennslan fram á KA-svæðinu.
Námskeiðin verða ætluð fyrir krakka, stráka og stelpur, á aldrinum 10-16 ára (allir iðkendur í 5., 4. og 3. aldursflokki) og verða
æfingar hvern þessara fimm daga frá kl. 10-12 og síðan verður boðið upp á hádegisverð. Eftir hádegi verða æfingar og
fræðsla frá kl. 13 til 15. Hver og einn þátttakandi verður mældur og fær leiðbeiningar frá þjálfurunum um hvað hann
þarf að leggja aukna áherslu á og bæta. Þátttakendur fá góða innsýn í þjálfun atvinnumanna og hvað
þurfi til þess að ná alla leið í atvinnumennsku í knattspyrnu.
Grétar Rafn Steinsson er gott dæmi um knattspyrnumann frá Íslandi sem hefur lagt gríðarlega mikið á sig til þess að ná
því markmiðið að spila í sterkustu knattspyrnudeild í heimi, ensku úrvalsdeildinni. Hann ólst upp á Siglufirði og spilaði með
KS í yngstu aldursflokkunum, en gekk til liðs við ÍA í þriðja flokki. Af Skaganum lá leið hans árið 2005 til Young Boys í Sviss, en
síðar á árinu keypti hollenska félagið AZ Alkmaar hann. Þar vakti Grétar Rafn verðskuldaða athygli og svo fór að

í janúar sl. keypti
enska úrvalsdeildarliðið Bolton Wanderers hann. Óhætt er að segja að á undra skömmum tíma hafi Grétar Rafn fest sig í sessi
í liði Bolton sem öflugur hægri bakvörður og gerði hann sannarlega sitt til þess að tryggja úrvalsdeildarsæti Bolton, en framan af vetri var
liðið lengi í fallsæti.
Sem fyrr segir verður Knattspyrnuskóli Grétars Rafns, Bolton og Vífilfells dagana 9. til 13. júní á KA-svæðinu ef tilskilinn fjöldi
þátttakenda fæst. Námskeiðsgjald pr. þátttakanda er kr. 11.900 og greiðist við upphaf námskeiðisins.
Unnt er að skrá sig á námskeiðið í gegnum heimasíðu skólans, sem er á slóðinni
www.knattspyrnuskoligretars.net . Einnig er unnt að fá frekar upplýsingar með því að senda fyrirspurnir á
netfangið
knattspyrnuskoligretars@gmail.com