KA og N1 hafa haldið N1 mótið fyrir 5. flokk drengja frá árinu 1987 og hefur mótið vaxið og dafnað ár frá ári og er nú eitt allra stærsta íþróttamót landsins og er klárlega einn af hápunktum ársins hjá okkur KA-mönnum. Á dögunum var sagan svo skrifuð upp á nýtt er KA og N1 héldu fyrsta N1 mótið fyrir 6. flokk stúlkna.
Mikið var lagt í mótið til að hafa sömu umgjörð hjá stelpunum og hefur byggst upp hjá strákunum og erum við í skýjunum með móttökurnar og hve skemmtileg stemning ríkti á svæðinu. Alls léku rúmlega 500 stelpur á mótinu í 84 liðum en leikið var frá föstudeginum 8. ágúst til sunnudagsins 10. ágúst.
Það var ótrúlega gaman að upplifa gleðina á mótinu og klárt að við munum gera okkar besta til að byggja enn frekar á þessu fyrsta móti. Það má með sanni segja að það sé strax komin eftirvænting hjá okkur að endurtaka leikinn á næsta ári!
N1 og Pedrómyndir buðu öllum liðum mótsins upp á fría hópmyndatöku og er hægt að nálgast myndirnar hér fyrir neðan.
Smelltu á myndina til að skoða hópmyndir frá mótinu
Þá var stórglæsilegt myndband gert fyrir mótið en rétt eins og hjá strákunum var það snillingurinn Tjörvi Jónsson sem setti það saman en honum tókst að fanga nokkur snilldartilþrif af mótinu sem og stemninguna góðu.
Sigurvegarar N1 móts stúlkna 2025:
Argentíska deildin: HK Ísabel Rós
Brasilíska deildin: Keflavík Brynja Arnars
Chile deildin: KFA Rósey
Danska deildin: Breiðablik Áslaug Munda
Enska deildin: Fram Olga Ingibjörg
Franska deildin: HK Loma McNeese
Gríska deildin: ÍR Sveindís