Magnað 2-2 jafntefli gegn Frökkum

Íslenska U-17 piltalandsliðið í knattspyrnu gerði í kvöld jafntefli við sterkt lið Frakka í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni Evrópumótsins í Slóveníu. Íslendingar lentu undir 0-2 en með miklu harðfylgi og baráttu í seinni hálfleik skoruðu þeir tvö mörk og uppskáru eitt stig. Fannar Hafsteinsson varði mark Íslands í leiknum í kvöld og greip oft gríðarlega vel inn í og Ævar Ingi Jóhannesson, sem var á vinstri kantinum, spilaði allan leikinn af þeim krafti og ódrepandi baráttuvilja sem er einkennandi fyrir hann.

Frakkar höfðu yfir 1-0 í hálfleik eftir mark á 7. mínútu og þeir bættu við öðru mark rétt fyrir miðjan seinni hálfleikinn. En okkar drengir neituðu að leggja árar í bát. Á 65. mínútu var Gunnlaugi Hlyni Birgissyni úr Breiðabliki skipt inn á og hann minnkaði muninn fyrir Ísland strax mínútu síðar. Og fyrirliði íslenska liðsins, Hjörtur Hermannsson úr Fylki, skoraði síðan jöfnunarmarkið á 77. mínútu og þar við sat - jafntefli niðurstaðan í þessum fyrsta leik, sem verða að teljast góð úrslit eftir að íslenska liðið hafði lent tveimur mörkum undir.

Frakkarnir voru töluvert sterkari í fyrri hálfleik og Íslendingar fengu fá tækifæri. Í síðari hálfleik byrjuðu okkar strákar með látum og þjörmuðu að Frökkunum. Engu að síður settu Frakkar annað mark, en það sló íslenska liðið ekki útaf laginu, sem fyrr segir. Frábært vinnustig í höfn.

Í hinum leiknum í riðlinum sigruðu Þjóðverjar Georgíumenn með einu marki gegn engu. Íslendingar mæta Þjóðverjum nk. mánudag og eftir því sem næst verður komist verður sá leikur sýndur á Eurosport. Það er full ástæða til þess að hvetja alla til þess að fylgjast með strákunum okkar í baráttunni gegn þýska stálinu.