Magnaður sigur Íslands á Skotlandi í kvöld!

Íslensku strákarnir í U-17 landsliðinu sigruðu heimamenn í Skotlandi í kvöld í öðrum leik sínum í milliriðli Evrópumóts landsliða með einu marki gegn engu. KA-strákarnir Fannar Hafsteinsson og Ævar Ingi Jóhannesson stóðu vaktina í leiknum, Fannar varði mark Íslands og Ævar Ingi kom inn á 56. mínútu leiksins. FH-ingurinn Kristján Flóki Finnbogason skoraði mark Íslands á 43. mínútu leiksins. Nú er ljóst að úrslitin í milliriðlinum ráðast ekki fyrr en í lokaumferðinni á sunnudag þegar Íslendingar mæta Litháum og Danir spila við Skota. Danir unnu í kvöld Litháa með þremur mörkum gegn einu og eru því sem stendur í efsta sæti riðilsins, með einu marki betra markahlutfall en Íslendingar.
Það er því ljóst að ekkert nema sigur gegn Lítháum kemur til greina ef íslenska liðið ætlar sér í lokakeppni Evrópumótsins og jafnframt þurfa úrslit leiks Skota og Dana að vera okkur hagstæð - annað hvort jafntefli eða að Skotar leggi Dani.