Mikael Breki Þórðarson skrifaði í dag undir nýjan þriggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2028. Mikael Breki eða Mikki eins og hann er iðulega kallaður er ákaflega spennandi og efnilegur miðjumaður sem á framtíðina fyrir sér.
Þrátt fyrir að vera einungis 18 ára gamall hefur Mikki nú þegar leikið 18 leiki fyrir KA í deild og bikar og gert í þeim tvö mörk. Hann lék sinn fyrsta keppnisleik með meistaraflokk sumarið 2022 í 4-1 sigri á Reyni þá aðeins 15 ára gamall. Í sumar hefur hann tekið þátt í 10 leikjum og gerði meðal annars stórglæsilegt mark í 1-1 jafntefli gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks á Kópavogsvelli. Fyrsta markið fyrir KA kom hinsvegar í 3-3 jafntefli gegn HK en í báðum þessara leikja hefur Mikki verið í byrjunarliði KA.
Þá er Mikki fastamaður í yngrilandsliðum Íslands en hann hefur leikið 13 leiki fyrir Íslands hönd en Mikki lék sína fyrstu leiki með U19 í síðasta mánuði er Ísland vann Kasakstan og Sameinuðu Arabísku furstadæmunum en tapaði gegn liði Aserbaídsjan.
Það er afar jákvætt að Mikki sé búinn að skrifa undir nýjan þriggja ára samning við félagið, það er ljóst að það verður virkilega spennandi að fylgjast áfram með framgöngu hans næstu árin.