Biðröðin sem myndaðist í KA-heimilinu í morgun þegar sala hófst í knattspyrnuskóla Arsenal gefur til kynna að mikill áhugi sé á að taka þátt í skólanum dagana 13.-17. júní næsta sumar. Salan hófst klukkan 10 í morgun og lauk klukkan 13 og á þeim tíma seldist drjúgur hluti lausra aðgangskorta í skólann. En þeir sem ekki gátu keypt aðgang að Arsenalskólanum í morgun hafa enga ástæðu til að fara í jólaköttinn því áfram verður selt í skólann í næstu viku.
Arsenalskólinn var fyrst starfræktur á KA-svæðinu í fyrrasumar og tókst frábærlega. Í því ljósi ákváðu forráðamenn Arsenalskólans að koma aftur til Íslands í sumar með þjálfara sína og kenna íslenskum knattspyrnukrökkum allt það besta sem þeir geta miðlað til krakkanna. Í fyrra voru 300 þátttakendur allsstaðar að af landinu í skólanum og sami fjöldi verður í ár. Það skal undirstrkað að Arsenalskólinn er fyrir krakka í 5., 4. og 3. flokki karla og kvenna - f. 1995 til 2000. Í morgun var annars vegar selt í skólann í KA-heimilinu og það verkefni önnuðust fyrir skólann fulltrúar í yngriflokkaráði KA í knattspyrnu. Einnig var unnt að hringja inn og ganga frá greiðslu í gegnum síma. Allt gekk þetta ljómandi vel fyrir sig og var sem fyrr segir mikil sala og þegar búið að selja stóran hluta rýma í skólann. Áfram verður hægt að tryggja sér pláss í skólanum. Í KA-heimilinu verður sala sem hér segir:
Mánudaginn 6. desember kl. 16.30-18.00
Þriðjudaginn 7. desember kl. 16.30-17.30
Miðvikudaginn 8. desember kl. 16.30-18.00
Þeir sem eru utan Akureyrar og vilja tryggja sér pláss í skólanum eru hvattir til að senda sem fyrst fyrirspurnir á netfangið yngriflokkarad@gmail.com Í þessu gildir hið forkveðna;fyrstir hafa samband, fyrstir fá.