Næstu andstæðingar: FH

KA ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í næsta leik sínum í Lengjubikarnum. Þá koma FH-ingar í heimsókn en þeir eru eina liðið í B-riðli sem ekki hefur tapað stigum. Þeir hafa spilað við Val og Víking og unnið örugglega 3-0 og 2-0. KA hefur enn ekki hlotið stig svo róðurinn verður sjálfsagt erfiður. Leikurinn fer fram í Boganum á sunnudag kl 16:15.

Það verður fróðlegt að sjá hvort David Disztl verði með á sunnudaginn og Sandor verður sjálfsagt kominn í markið á ný.

KA tapaði síðasta leik í Lengjubikarnum 1-4 fyrir Fram. Athygli vakti að í byrjunarliði KA voru sex uppaldir strákar og aðrir sex á bekknum. Meðal þeirra var hinn kornungi og efnilegi markvörður, Ólafur Jóhann Magnússon. Stóð hann á milli stanganna í fjarveru Sandors.

Á mánudaginn var svo tekinn léttur tangó við Þór og lauk þeim leik með klassísku 1-1 jafntefli. Andri Fannar skoraði fyrir KA en Hreinn Hringsson jafnaði fyrir Þór.