2. fl: Flottur sigur KA2 gegn Þór2 í Soccerademótinu

KA vann Þór 3-2 í leik um 7. sætið á Soccerademótinu í kvöld. Leikurinn var hraður og nokkuð skemmtilegur en KA-menn byrjuðu hann hörmulega, lentu 0-2 undir eftir tíu mínútur. Míló tók greinilega fjórfalda hárþurrkumeðferð í hálfleik a la Ferguson og átti KA allan seinni hálfleikinn. Í honum uppskáru þeir þrjú mörk og í heildina verður að telja sigur KA sanngjarnan.

Þór var sterkara liðið í byrjun leiks en í stöðunni 0-2 vöknuðu loks KA-menn. Fátt markvert gerðist svo sem eftir mörkin og var enn 0-2 í hálfleik. KA strákarnir byrjuðu vel í seinni hálfleik og áttu svo leikinn allt til enda. Nettómar minnkaði fljótlega muninn og svo kom jöfnunarmark úr óvæntri átt þegar Ingvar varnarjaxl potaði einu eftir aukaspyrnu. Sigurmarkið kom u.þ.b. 20 mínútum fyrir leikslok og þar var Jóhann Örn að verki.

Athygli vakti að fjölmargir áhorfendur mættu á leikinn. Stór hluti þeirra voru táningsstelpur enda ekki á hverjum degi sem hægt er að horfa á alla aðal spaðana í bænum berja á hverjum öðrum.