Ný útgáfa af stuðningslagi KA í burðarliðnum

Leikmenn mfl. í KA rétt áður en upptökur hófust í KA-heimilinu í dag. Það kom á daginn að piltunum e…
Leikmenn mfl. í KA rétt áður en upptökur hófust í KA-heimilinu í dag. Það kom á daginn að piltunum er ýmislegt meira til lista lagt en að sparka í bolta!
Nú er unnið hörðum höndum að því að endurvinna gamla, góða stuðningslag KA, sem Bjarni Hafþór Helgason samdið árið 1989 - árið sem KA varð Íslandsmeistari í knattspyrnu. Það er Jóhann Már Kristinsson, sem hefur haft veg og vanda að þessari vinnu og afraksturinn mun gleðja eyru stuðningsmanna KA og fleiri um það leyti sem KA tekur á móti Víkingi R í fyrsta heimaleiknum á þessu keppistímabili.

Það er Eyþór Ingi Gunnlaugsson, rokkarinn góðkunni frá Dalvík, sem syngur lagið og í dag var kórhlutinn tekinn upp í KA-heimilinu. Leikmenn meistaraflokks, doktor Petar, stjórnarmaðurinn Halldór Aðalsteinsson og Óskar framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar mynduðu öflugan kór, sem sungu sem mest þeir máttu; Áfram KA-menn, áfram KA-menn, áfram KA-menn - við viljum sigur í þessum leik!

Það var síðla sumars 1989 - þegar menn voru farnir að sjá í fjarska drauminn um dollu - sem Stefán Gunnlaugsson, þáverandi formaður knattspyrnudeildar, kom að máli við Bjarna Hafþór Helgason og bað hann að athuga hvort hann gæti gert eitthvert stef sem gæti sameinað stuðningsmenn KA. Bjarni Hafþór lagði höfuðið í bleyti og fékk til liðs við sig þá bræður og hörðu KA-menn, Karl og Atla Örvarssyni. Uppskeran var það magnaða lag sem hefur hljómað síðan - á þriðja tug ára.

Núna, tuttugu og þremur árum síðar, þótti rétt að blása nýju lífi í stuðningslagið og víst er að útkoman verður flott. Bjarni Hafþór, lagahöfundur, mætti í KA-heimilið í dag og fylgdist með upptökum á bakröddunum í laginu og leist mjög vel á - hafði orð á því að þetta væri töluvert öflugri kór en söng til stuðings Karli Örvarssyni fyrir 23 árum.

Svo nú er bara að bíða í eftirvæntingu eftir útkomunni - ný útgáfa af stuðningslagi KA er sem sagt í burðarliðnum!