Á morgun laugardag tökum við á móti galvöskum Víkingum frá Ólafsvík í 19 umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Blásið verður til leiks kl 14 af dómara leiksins en hann verður samkv. heimasíðu KSÍ Pétur Guðmundsson.
Víkingar lögðu okkar menn í fyrri leik þessara liða í sumar 2-1, mark okkar skoraði Hallgrímur Mar. Óhætt er hinsvegar að segja að gestir okkar hafa ekki sótt gull í greipar okkar á Akureyrarvell því þeir hafa ekki unnið okkur í fimm tilraunum. Þannig á það líka að vera finnst mér, en ekkert er gefið í þessum fræðum það veit ég líka.
Frábær sigur okkar gegn Gróttu s.l helgi tryggði eins og fólk veit að sæti okkar í 1 deild er öruggt og því geta okkar menn farið í leikinn til þess að njóta þess að spila fótbolta á mögnuðum velli. Menn tala um að svona leikur hafi enga þýðing en það er í besta falli rangt, þrjú stig eru í boði og þau skulum við tryggja okkur.
Gulli þjálfari okkar segir í viðtali við Vikudag ,,mikilvægt sé að klára tímabilið með sóma", það eru orð að sönnu. Ennfremur sagði hann í sama viðtali ,,Við verðum að halda dampi og njóta þess að spila áhyggjulausir, án þess að hugsa um falldrauginn," Pikkari sem hér fer fingrum um lyklaborðið hefur fulla trú á því að leikurinn á morgun verði á fullum dampi. Þessum pikkara hlakkar til að sjá K.A. taka á móti gestum okkar frá Ólafsvík.
Koma strákar vinnum þá!
Áfram K.A.
Og að sjálfsögðu fylgir auglýsing þessum leik þar sem doktorinn fer að sjálfsögðu á kostum ásamt Boris Lumbana!