Ómar spilaði allan leikinn gegn Kýpur

Ómar Friðriksson, leikmaður KA, spilaði allan leikinn með U-19 landsliðinu gegn Kýpur í öðrum leik liðsins í undankeppni Evrópumótsins á Kýpur í dag. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli.

Ómar var á bekknum í fyrsta leiknum á Kýpur en þá beið liðið lægri hlut gegn Lettum 0-2, en hann var sem sagt í byrjunarliðinu í dag gegn heimamönnum á Kýpur.

Síðasti leikur landsliðsins í riðlakeppninni verður nk. miðvikudag gegn Norðmönnum, sem eru nú efstir í riðlinum með fjögur stig - eftir 2-0 sigur á Lettum og jafntefli gegn Kýpur. Lettar eru með þrjú stig, Kýpverjar 2 stig og Íslendingar reka lestina með 1 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í riðlinum.