KA-maðurinn Ómar Friðriksson spilaði allan leikinn með U-19 landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins á Kýpur í gær í 2-2 jafntefli gegn Norðmönnum.
Ómar spilaði ekki fyrsta leikinn í riðlakeppninni gegn Lettlandi, sem tapaðist 2-0 en hann kom inn í byrjunarliðið gegn Kýpverjum, en þeim leik lyktaði með jafntefli 1-1. Og hann hélt stöðu sinni og spilaði síðan í byrjunarliðinu aftur í gær gegn Norðmönnum.
Frændur okkar Norðmenn byrjuðu betur og skoruðu fyrsta markið á 6. mínútu. Íslendingar jöfnuðu leikinn með marki frá Hólmbert Friðjónssyni á 20. mínútu og þeir komust síðan yfir á 51. mínútu með marki frá Tómasi Garðarssyni. Norðmenn náðu hins vegar að jafna leikinn á 62. mínútu og þar við sat.
Þrátt fyrir fína frammistöðu í riðlakeppninni endaði íslenska liðið í neðsta sæti riðilsins með tvö stig og er þar með úr leik. Norðmenn urðu efstir með fimm stig. Kýpverjar lentu í öðru sæti með jafn mörg stig og Lettar enduðu í því þriðja með þrjú stig.