Öruggur sigur á Þór 2 í Hleðslumótinu

KA 1 spilaði annan leik sinn í Hleðslumótinu í fótbolta í Boganum í dag gegn Þór 2. Okkar menn höfðu öruggan sigur, 5-1. Staðan var 2-1 í hálfleik.

Liðsuppstilling KA-liðsins var á margan hátt óhefðbundin í dag, enda margir leikmenn fjarverandi, auk þess sem þessir leikir á undirbúningstímabilinu eru notaðir út í ystu æsar til þess að prófa ýmis leikafbrigði og sjá hvernig leikmenn koma út í nýjum stöðum.

Byrjunarliðið var þannig skipað að í markinu var Fannar Hafsteinsson, í miðverðinum Gunnar Valur og Elmar Dan, Jakob Hafsteinsson í vinstri bakverði og Ævar Ingi Jóhannesson í þeim hægri. Á miðjunni voru Brian Gilmour, Þórður Arnar Þórðarson og Jóhann Helgason, á köntunum Viktor Mikumpeti og Guðmundur Óli Steingrímsson og fremstur var Hallgrímur Mar Steingrímsson.

KA-menn komu sterkari til leiks en hinir ungu og kröftugu strákar í Þór 2 gáfu þeim lítinn frið. Fyrsta markið skoraði Hallgrímur Mar á 16. mínútu en Þórsararnir jöfnuðu leikinn úr laglegri sókn á þeirri 20. Hallgrímur kom KA síðan aftur yfir á 23. mínútu úr víti og þannig stóðu leikar í hálfleik.

KA-menn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og strax á 47. mínútu skoraði Jóhann Helgason þriðja markið. Hann var síðan aftur á ferðinni á 51. mínútu og innsiglaði þrennuna með fimmta og síðasta marki KA-manna á 58. mínútu.

Jóhann Örn Sigurjónsson kom inn á undir lok fyrri hálfleiks fyrir Viktor, sem fór útaf meiddur. Á 78. mínútu kom Ómar Friðriksson inn á fyrir Ævar Inga, Aksentije Milisic kom inn fyrir Þórð Arnar og Jón Heiðar Magnússon kom inn á fyrir Jakob Hafsteins.