Kvennalið Þórs/KA vann í kvöld öruggan 3-0 sigur á Selfyssingum á Þórsvelli. Fyrir leikinn var lið Selfoss fyrir ofan í deildinni með 9 stig en Þór/KA lyftir sér upp í 4. sæti deildarinnar með 11 stig eftir þennan góða sigur.
Þór/KA 3 - 0 Selfoss
1-0 Sandra Stephany Mayor Gutierrez ('2)
2-0 Sandra Stephany Mayor Gutierrez ('23)
3-0 Natalia Ines Gomez Junco Esteva ('85)
Það tók ekki langan tíma fyrir Söndru Stephany að skora fyrsta markið en það kom strax á annarri mínútu leiksins eftir að hafa vippað boltanum glæsilega í fjærhornið. Eftir kortérsleik fékk Sandra María Jessen algjört dauðafæri eftir glæsisendingu frá Huldu Ósk Jónsdóttur en Sandra setti boltann yfir markið.
Stuttu síðar tvöfaldaði svo Sandra Stephany forystuna eftir að Sandra María hafði gert vel að senda inn fyrir vörn gestanna. Flott að sjá stelpurnar okkar leika sér hreinlega að vörn gestanna. Selfyssingar reyndu hvað þeir gátu til að koma sér inn í leikinn og fengu nokkur ágætisfæri en inn vildi boltinn ekki.
Þegar um 20 mínútur voru búnar af síðari hálfleik fékk Þór/KA ótrúlega sókn, Sandra María átti gott skot úr teignum sem markvörður Selfoss varði, Sandra Stephany náði frákastinu og skaut í varnarmann og þaðan barst hann á Írunni Þorbjörgu Aradóttur sem skaut yfir af stuttu færi, ótrúlegt að boltinn hafi ekki endað í markinu.
Það var svo loksins þegar 5 mínútur lifðu leiks að þriðja markið kom og það var Natalia Gomez sem skoraði eftir flotta sendingu frá Huldu Ósk og 3-0 sigur staðreynd.
Flott frammistaða hjá stelpunum gegn sterku liði Selfoss og nú er bara að vona að þær nái að halda sama dampi í næstu leikjum, áfram Þór/KA!