Þór/KA mætti til Vestmannaeyja í dag þar sem liðið mætti sterku liði ÍBV. Eftir góðan fyrri hálfleik þar sem liðið leiddi 0-2 fór að ganga verr og heimastúlkur komu til baka og unnu á endanum 3-2.
ÍBV 3 - 2 Þór/KA
0-1 Sandra Mayor ('9)
0-2 Hulda Ósk Jónsdóttir ('35)
1-2 Kristín Erna Sigurlásdóttir ('46)
2-2 Cloé Lacasse ('61)
3-2 Andrea Mist Pálsdóttir ('64, sjálfsmark)
Það var búist við svakalegum leik á Hásteinsvelli í dag enda bæði lið spilað vel í sumar og enn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Sigur hefði fleytt okkar liði í stórkostlega stöðu og byrjunin var glæsileg þegar Sandra Mayor gerði sitt 16 mark í deildinni með góðu skoti sem fór yfir Adelaide í marki ÍBV.
Bæði lið reyndu hvað þau gátu í kjölfarið og var alveg ljóst að það yrði ekkert gefið eftir í leiknum. Hulda Ósk Jónsdóttir tvöfaldaði forystu okkar liðs þegar hún skoraði laglegt mark eftir sendingu frá Söndru Maríu Jessen og staðan orðin ansi góð.
Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik og staðan því 0-2 þegar liðin gengu inn til búningsherbergja. Þór/KA hafði verið sterkari aðilinn en ÍBV liðið hafði átt sín færi líka og ljóst að leikurinn var hvergi nærri úti.
Það tók heimastúlkur líka varla mínútu að laga stöðuna eftir hlé þegar Kristín Erna átti gott skot sem að Bryndís Lára í markinu átti ekki möguleika í. Það var alveg ljóst að þetta mark gaf Eyjastúlkum mikið því að þær sóttu hart í kjölfarið.
Jöfnunarmarkið lá svolítið í loftinu og það kom á 61. mínútu þegar Cloé Lacasse átti stórbrotið skot fyrir utan teig og staðan orðin 2-2. Enn var nóg eftir af leiknum og ljóst að mörkin myndu verða fleiri í leiknum.
Stuttu síðar gerði Andrea Mist Pálsdóttir sjálfsmark þegar hún náði ekki að hreinsa boltann úr teignum og boltinn endaði í netinu. Svekkjandi fyrir Andreu og ótrúlegt hvernig ÍBV liðið náði að snúa leiknum algjörlega við á jafn skömmum tíma.
Enn var nóg eftir og var gríðarleg barátta í leiknum, Eyjakonur voru komnar á bragðið á meðan okkar lið var staðráðið í því að fá eitthvað útúr leiknum. Því miður fannst jöfnunarmarkið ekki og lokatölur því 3-2 fyrir ÍBV.
Fyrsta tapið í deildinni er því staðreynd en okkar lið er enn í frábærri stöðu þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir af deildinni. Stelpurnar eru með 7 stiga forskot á ÍBV en Breiðablik getur minnkað muninn niður í 5 stig með sigri á miðvikudaginn.
Svekkjandi að fá ekkert útúr leiknum í dag en þetta er enn í okkar höndum og nú tekur við heimaleikur gegn stórliði Stjörnunnar mánudaginn 4. september og hvetjum við ykkur öll til að mæta og styðja stelpurnar í þeim toppslag, áfram Þór/KA!