Pétur Óla: Erfitt að neita því að Arsenal spilar einn skemmtilegasta boltann í dag

Þann fjórtánda júní hefst Arsenalskólinn sem er á vegum KA. Þjálfarar frá Arsenal koma hingað til lands og kenna krökkum á öllum aldri ýmislegt í fótbolta. Mikið skipulag hlýtur að fara í svona stóran viðburð. Pétur Óla, yfirþjálfari KA, er maðurinn á bak við þetta og má segja að það sé honum að þakka að þessi skóli sé að verða að veruleika. Við fengum Pétur í smá spjall um skólann og umgjörð hans.

Nú fer að styttast í að skólinn byrji, eru Pétur og félagar með allt klárt? ,,Það er mikil skipulagning sem fylgir svona viðamiklum skóla.  Í allan vetur hefur verið unnið að heildarskipulagi skólans og núna síðustu vikurnar erum við að fara enn ítarlegra í alla hluti.  Það er okkur mikið kappsmál að allt gangi sem best og allir iðkendur fari mjög sáttir frá okkur.  Eins skiptir það okkur miklu máli að Arsenal finnist þetta gert af fagmennsku.“

,,Töluverður tími hefur farið í skipulagninguna.  Það þarf að panta, bolta, keilur, vesti.  Skipuleggja hópana með tilliti til aldurssamsetningar.  Panta flug og gistingu fyrir þjálfarana og sjá til þess að þeim líði sem best á Akureyri.  Og síðan tínist ýmislegt til,“ sagði Pétur um undirbúning og skipulagningu skólans og tímann sem það hefur tekið.

En hversu margir þjálfarar komi frá Englandi til að sinna krökkunum? ,,Frá Arsenal koma 6 þjálfarar. Síðan munu a.m.k. 12 íslenskir aðstoðarþjálfarar vera með þeim.“

,,Yfirþjálfari  knattspyrnuskólans  kemur  frá  Arsenal  og  heitir  Jamie  Monteith.   Hann  hefur  þjálfað  börn  og  unglinga  frá  7  til  19  ára  til  margra  ára  og  unnið  við  Arsenal  Soccer  School  verkefni  í  Hollandi,  Danmörku,  Belgíu  og  Indlandi.   Aðrir  þjálfarar  eru:  Ben  Luck,  Rupen  Shah,  Ross  McKindley,  Tom  Bromley  og  Dean  Grant.  Þeir  hafa  allir  áralanga  reynslu   í  Englandi  og  öðrum  löndum.“

Salan á gjafabréfum gekk öllum vonum framar og segir Pétur mikla aðsókn utan Akureyrar í skólann. ,,Öll  300  sætin  í  skólann  seldust  upp  á  um  3  klukkustundum.  Þátttakendur  koma  alls  staðar  að  af  landinu  og  við  eigum  von  á  krökkum  frá  eftirfarandi  félögum:  Aftureldingu,  Austra,  BÍ,  Breiðabliki,  Dalvík,  Einherja,  FH,  Fjarðabyggð,  Fjölni,  Fram  (Reykjavík),  Fram  á  Skagaströnd,  Fylki,  Geislanum  Hólmavík,  Grindavík,  Gróttu,  Haukum,  HK,  Hetti,  ÍA,  Keflavík,  Kormáki  Hvammstanga,  KS,  Leiftri,  Leikni,  Magna,  Mývetningi,  Neista,  Samherja,  Sindra,  Skallagrími,  Stjörnunni,  Tindastól,  UMFL,  UMFT,  UMSS,  USAH,  Víkingi,  Völsungi,  Þrótti,  Þór  og  KA,“ sagði Pétur.   

,,Ef báðir aðilar verða sáttir við niðurstöðuna þá tel ég mjög líklegt að við ræðum aftur við forsvarsmenn skólans um að þetta verði árvisst.  Veit að vísu að þeir eru mjög uppteknir og því alls ekki sjálfsagt að þetta verði aftur.  En við vissulega stefnum að því að þetta sé komið til með að vera.  Því þetta er glæsilegur viðauki við okkar starf,“ sagði Pétur, aðspurður um hvort þetta yrði árlegur atburður eða eitthvað því um líkt.

,,Maður finnur að krakkarnir verða spenntari og spenntari eftir því sem nær líður.“

Þegar við spurðum Pétur út í það hvernig æfingarnar munu vera, mikil tækni eða eitthvað slíkt hafði hann þetta að segja: ,,Allt skipulag kemur frá Arsenal.  Þeir fylgja kerfi sem heitir ”Play the Arsenal way” og við bíðum spenntir eftir því að sjá út á hvað það gengur.  Það er a.m.k. erfitt að neita þeirri fullyrðingu að Arsenal er að spila einn skemmtilegasta boltann í dag.“

Skólinn  hefst  mánudaginn  14.  júní  og  honum  lýkur  föstudaginn  18.  júní.   Fyrsta skóladaginn,  14.  júní,  mæta  þátttakendur   kl.  9.30  í  stóra  salinn  í  KA  heimilinu.  Knattspyrnuskólinn  verður  starfræktur   á  þjóðhátíðardaginn,  17.  júní. 

,,Alla  skóladagana  hefjast  æfingar  klukkan  10  og  verður  æft  í  tvær  klukkustundir.  Þá  verður  tekið  hádegishlé  og  reiddur  fram  hádegisverður  í  Lundarskóla.   Að  honum  loknum  verður  aftur  æft  í  tvær  klukkustundir  og  er  miðað  við  að  æfingum  verði  lokið  um  klukkan  15.  Að  æfingum  loknum  verður  öllum  þátttakendum  boðið  upp  á  “Hleðslu”  frá  MS,“ sagði Pétur og því auðsjáanlegt að krakkarnir munu ekki svelta á meðan skólinn er í gangi.

Nánar á vefsíðu skólans http://ka.fun.is/arsenal