Pétur kynnir skólann fyrir gestum á blaðamannafundi á Hótel KEA í dag.
Í dag var skrifað undir samstarf milli KA og Arsenal um að enska úrvalsdeildarfélagið verði með knattspyrnuskóla á Akureyri næsta sumar en
Pétur Ólafsson yfirþjálfari yngriflokka KA er forsprakkinn að þessu samstarfi.
,,Við höfðum samband við þá og fengum strax jákvæð viðbrögð. Við vorum buin að vera að sverma
fyrir Liverpool en léleg svörun frá þeim varð til þess að við töluðum Arsenal. Þeir unnu mjög hratt og örugglega og þetta
samstarf komst á fyrir þremur vikum síðan," sagði Pétur Ólafsson yfirþjálfari yngri flokka KA við Fótbolta.net eftir að
skrifað var undir samninga í dag.
,,Þeir kveiktu strax á conceptinu sem við settum upp. Með fyrstu símtölunum varð þetta að samning og þá
var ekkert aftur snúið. Við vildum bjóða þeim hingað til að hitta okkur og sjá aðstöðuna sem við höfum. Þau eru mjög
hrifin af því sem þau hafa séð."
,,Stefnan er að þetta verði til frambúðar en þetta er vissulega prufukeyrsla fyrsta árið. Við sjáum til hvernig
framtíðin verður en okkar draumur er að þetta verði árlega á Akureyri."
,,Það er mjög mikill metnaður lagður í þetta. Landsliðsþjálfararnir koma einn og einn dag, ganga á milli
og leiðbeina krökkunum. Það eiga eftir að detta inn fleiri gestir en þeir sem eru komnir," sagði Pétur sem býst við mikilli
ásókn.
,,Þetta er fyrir krakka allsstaðar af landinu í 3. 4. og 5.flokki karla og kvenna. Þar sem að aðeins 200 sæti eru í
boði þá verður örugglega slegist um þau en þeir fyrstu sem skrá sig og borga fá öruggt sæti á námskeiðinu. Þegar
við opnum fyrir skráningu í byrjun desember brennur heimasíðan örugglega yfir."
200 sæti eru í boði á námskeiðinu en ekki er útilokað að þeim eigi eftir að fjölga.
,,Við erum að vinna í að fá fleiri þjálfara frá þeim og það er alveg fræðilegur
möguleiki. Það voru mjög margir þjálfarar sem sýndu áhuga á að koma og við erum nokkuð bjartsýn á að það
geti tekist."
,,Þá yrði þetta stærra námskeið en 200 sæti en við erum bara með 200 sæti tryggð núna og
við viljum ekki stækka nema við fáum fleiri þjálfara. Við erum með ákveðinn gæðastimpil á þessu, hver þjálfari
verður með 50 krakka og fjóra aðstoðarmenn með sér þannig að hver þjálfari verður með um 10 krakka," sagði Pétur
að lokum.