Umfjöllun: Þór - KA

Í gærkvöldi mættust Þór og KA í erkifjendaslag í fyrstu deildinni og svo fór að KA-menn tóku öll stigin þrjú en sigurmarkið kom í uppbótartíma og gat sigurinn því varla verið sætari.

Þór 0 - 1 KA
0 - 1 Arnar Már Guðjónssson ('92)

Umfjöllun á Fótbolta.net
Leikskýrslan
Deildin á KSÍ.is

Sandor

Haukur Hei. - Norbert - Janez - Ingi
Túfa
Dean M. - Arnar M. - Guðmundur Ó. - Steinn G.

Almarr (F)

Varamenn: Orri Gústafsson, Sveinn Elías Jónsson(Steinn G), Andri Fannar(Dean M), Þórður Arnar, Baldvin.

Engar breytingar voru gerðar á liðinu frá síðasta leik gegn Leikni. Fremur kaltvar í veðri og jókst vindurinn eftir því sem á leið leikinn einnig fór að rigna í síðari háfleik og það heldur duglega. En það var þó vel mætt þrátt fyrir leiðinda veður.

Leikurinn byrjaði heldur rólega og voru hvorugt liðið að gera sig líklegt. En á 12. mínútu átti Matthías Örn Friðriksson góða aukaspyrnu rétt við miðju sem rataði á kollinn á Gísla Páli Helgassyni og boltinn í slá. Eftir það áttu þórsarar nokkrar álitlegar sóknir og þóttu mun líklegri til að ógna marki KA. Og þar voru mest ógnandi fyrrum KA mennirnir Ibra, Linta og Hreinsi.

Á 27. mínútu vann Dean Martin boltann af varnarmönnum Þórs sem virtust vera í eilitlum vandræðum og gaf til Guðmundar Óla sem átti hörku skot sem Árni Skafta mátti hafa sig allan við til að verja. Nokkru seinna átti síðan Haukur Heiðar góðan sprett úr bakverðinum og sendi til Almarrs sem átti skot sem fór af varnarmanni og Árni brást vel við og varði. Aðeins örfáum mínútum seinna átti síðan Haukur Heiðar góða sendingu á Arnar Má sem var í sannkölluðu dauðafæri en skalli hans var máttlítill og átti Árni ekki í teljandi vandræðum með hann. Eftir það fjaraði hálfleikurinn út og staðan því markalaus í leikhléi.

Í síðari hálfleik lék KA með vindinn í bakið og voru mun sterkari aðilinn. Á 51. mínútu átti KA álitlega sókn. Almarr átti góða fyrirgjöf utan af kanti sem fór til Arnars Más sem lagið boltan snyrtilega til Guðmundar Óla sem átti skot sem Árni gerði vel að verja. Það var ekki fyrr en á 67. mínútu sem þórsarar fengu sitt fyrsta almennilega færi í síðari háfleik. Það gerðist þegar Atli Sigurjónsson átti laglega sendingu frá miðju á Sigurð Marínó Kristjánsson sem var kominn einn á móti einum og átti prýðis skot sem Sandor varði.

Á 72. mínútu fengu KA menn sannkallað dauðafæri sem Sveinn Elías klikkaði eftir að hann fékk sendingu inn í teig frá miðjunni og skaut rétt yfir frá teigslínu og sluppu Þórsarar aldeilis með skrekkin að þessu sinni. Eftir þetta sótti KA mikið að marki Þórs, og virtust mun líklegri en vindurinn spilaði líka sinn þátt í því og veitti KA þónokkra hjálp í síðari hálfleik.

Það voru síðan komnar tvær mínútur fram yfir vengjulegan leiktímaþegar KA fékk aukaspyrnu rétt út við miðju. Ingi Freyr tók hana og sendi háan og langan bolta sem var á leiðinni út af en Janez Vrenko skallaði knöttin fyrir þar sem Arnar Már Guðjónsson var réttur maður á réttum stað og skallaði boltann inn af stuttu færi. Og tryggði þar með KA sætan sigur á Þórsurum.

Það var virkilega jákvætt að sjá í dag að liðið barðist alveg fram á síðustu sekúndu leiksins og átti feykilega góðan seinni hálfleik líkt og í síðasta leik gegn Leikni. Þetta var sigur liðsheildarinnar og er gaman að sjá stemninguna sem er í liðinu. Að mínu mati voru þeir Haukur Heiðar, Almarr og Arnar Már sprækastir í dag og var gaman að sjá til þeirra. Vinir Sagga stóðu að sjálfsögðu fyrir sínu og sungu og trölluðu allann leikinn og efast ég ekki um að hver og einn einasti meðlimur Vini Sagga hafi verið raddlítill eftir leik. Næsti leikur er síðan heimaleikur gegn Stjörnunni. En Bjarni Jóhannsson og lærisveinar koma norður sunnudaginn 6. júlí og hefst leikurinn klukkan 16.00. Og er um að gera að mæta á völlinn enda liðið komið á fljúgandi siglingu og til alls líklegt.

- Aðalsteinn Halldórsson.