Báðar eru þær Helena og Ágústa fæddar árið 1994. Þær æfðu og spiluðu upp alla yngri flokka KA og hafa tekið sín fyrstu skref í meistaraflokki Þórs/KA. Helena er markvörður og vakti meðal annars athygli fyrir mjög góða frammistöðu í Evrópuleiknum á Þórsvelli gegn þýska stórliðinu Postdam. Ágústa spilar fyrst og fremst í stöðu miðvarðar.
KA hefur nú gert samninga við þrjár stúlkur sem örugglega munu láta að sér kveða í liði Þórs/KA á komandi keppnistímabili. Síðastliðið vor gerði félagið samning við Láru Einarsdóttur, sem er fædd árið 1995.
Bæði Ágústa og Lára komu við sögu í landsliðum Íslands á liðnu ári og Helena hefur á undanförnum mánuðum verið í landsliðsúrtaki í U-19 landsliði Íslands.
Þetta segir allt sem segja þarf; allar eiga þessar dugmiklu KA-stelpur framtíðina fyrir sér í fótboltanum og verður gaman að fylgjast með ferli þeirra.