Sandor og Arnar Már tilnefndir sem íþróttamenn KA

Markvörðurinn Sandor Matus og miðjumaðurinn Arnar Már Guðjónsson hafa báðir verið tilnefndir sem íþróttamenn KA fyrir árið 2008.

Arnar Már átti feykilega gott sumar á miðjunni hjá KA-liðinu sem hafnaði í fjórða sæti fyrstu deildar en hann kom frá ÍA seinasta vetur. Hann mun leika áfram með liðinu næsta sumar. Á lokahófinu í haust var hann valinn besti leikmaður liðsins af leikmönnum.

Sandor þarf ekki að kynna enda leikið með liðinu síðan 2004 og verið einn af lykilmönnum liðsins allar götur síðan. Í sumar lék hann alla leiki liðsins en einungis ÍBV og Stjarnan fengu færri mörk á sig í sumar en KA.

Tilkynnt verður á hófi í KA-heimilinu á sunnudaginn nk. kl. 14:00 hver verður íþróttamaður KA en Arnar og Sandor munu hljóta samkeppni frá fimm öðrum KA-mönnum úr öðrum deildum félagsins.

Mynd: Arnar Már skýtur að marki í leik gegn KS/Leiftri á Akureyrarvellinum í sumar.