Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu burstaði í dag lið Slóveníu 0-6 en leikurinn fór fram í Slóveníu og var liður í þriðju umferð undankeppni EM. Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA, byrjaði leikinn á bekknum en kom inn á eftir um hálftíma leik þegar Hólmfríður Magnúsdóttir meiddist.
Staðan var 0-2 þegar Sandra kom inn á en Dagný Brynjarsdóttir kom Íslandi yfir þegar hún komst ein í gegnum vörn slóvenska liðsins eftir sendingu frá Hólmfríði Magnúsdóttur og kláraði færið með afar yfirveguðum hætti. Harpa Þorsteinsdóttir prjónaði sig svo stuttu síðar í gegnum vörn Slóvena og lagði boltann huggulega í nærhornið. Ekki voru fleiri mörk skoruð fyrir hálfleiksflautið og staðan því 0-2.
Heimakonur byrjuðu síðari hálfleikinn betur en náðu ekki að skora, það var svo á 65. mínútu að Harpa Þorsteinsdóttir var aftur á ferðinni og skoraði þriðja mark Íslands í leiknum eftir frábært einstaklingsframtak. Örfáum mínútum síðar skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir svo fjórða markið þegar hún smellti boltanum í netið beint úr aukaspyrnu.
Sandra María Jessen skoraði síðan glæsilegt mark með góðu skoti í fjærhornið af vítateigslínunni vinstra megin í teignum þegar 10 mínútur lifðu leiks. Dagný Brynjarsdóttir kláraði svo leikinn endanlega þegar hún skoraði með skoti úr teignum á 86. mínútu og lokatölur því 0-6.
Stelpurnar eru því með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leikina og eru að leika mjög góðan fótbolta. Sandra María hefur núna skorað og lagt upp mark í síðustu tveimur landsleikjum og er að standa sig frábærlega, virkilega gaman að sjá hana standa sig með landsliðinu.