Það var ákjósanlegt veður til knattspyrnuiðkunar síðasta laugardag þegar KA-menn tóku á móti Njarðvíkingum í
15. umferð 1. deildar karla, léttskýjað og nánast logn.
KA 2 - 1 Njarðvík:
1-0 David Disztl ('19)
1-1 Andri Fannar Freysson ('33)
2-1 Janez Vrenko ('81)
Lið KA:
Markvörður: Sandor (F)
Miðverðir: Þórður og Haukur
Bakverðir: Jan og Kristján Páll
Afturliggjandi miðjumenn: Túfa og Davíð Rúnar
Vængmenn: Haukur Heiðar og Dean
Framliggjandi miðjumaður: Andri Fannar
Framherji: David Disztl
Varamenn: Steinn Gunnarsson ('65), Dan Stubbs ('72), Sigurjón Fannar Sigurðsson, Magnús Blöndal, Jakob
Hafsteinsson.
Það var ákjósanlegt veður til knattspyrnuiðkunar síðasta laugardag þegar KA-menn tóku á móti Njarðvíkingum í
15. umferð 1. deildar karla, léttskýjað og nánast logn.
Leikurinn byrjaði rólega en KA-menn höfðu undirtökin ef eitthvað var fyrstu mínúturnar. Á 19. mínútu áttu þeir
góða sókn upp hægri vænginn sem lauk með því að Haukur Heiðar átti hárnákvæma fyrirgjöf beint á kollinn
á David Disztl sem var einn á auðum sjó rétt utan markteigs gestanna og átti ekki í vandræðum með að stanga boltann í
hornið. 1-0.
KA-menn nánast hættu eftir markið að spila fótbolta og hleyptu Njarðvíkingum inn í leikinn. Það var svo á 33. mínútu sem
gestirnir jöfnuðu metin eftir mikinn vandræðagang í vörn KA-manna. Enginn af varnarmönnum KA virtist leggja í að ráðast á lausan bolta
í teignum svo Njarðvíkingurinn Andri Fannar Freysson þakkaði fyrir sig pent og afgreiddi boltann í netið. 1-1.
Hvorugt lið náði að bæta við marki fyrir hlé og hálfleikstölur því 1-1.
KA-menn höfðu yfirhöndina í síðari hálfleik ef eitthvað var og stjórnuðu leiknum á löngum köflum. Steinn Gunnarsson leysti
Davíð Rúnar Bjarnason af á 65. mínútu og Dan Stubbs kom inn fyrir David Disztl á 72. mínútu.
Skiptingarnar virkuðu ansi vel. Steinn kom með meiri sóknarþunga í liðið og þegar um 15 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma
skoraði hann, að því er virtist gott og gilt mark þegar hann tók boltann viðstöðulaust á lofti fyrir utan vítateig gestanna og smurði
hann upp í bláhornið. Guðmundur Ársæll Guðmundsson dómari og aðstoðarmenn hans sáu eitthvað athugavert við
sóknartilburði KA-manna og dæmdu aukaspyrnu á heimamenn. Dan var skipt inn á vinstri vænginn og Dean færði sig yfir á hægri í
stað Hauks Heiðars sem féll aftur í bakvörðinn. Jan, sem hafði verið hægri bakvörður, var settur í fremstu víglínu og
markaskorarinn David Disztl fékk hvíld. Dan jók sóknarþunga liðsins enn frekar, virkaði sprækur og nýtti hraða sinn vel gegn gestunum sem
nokkuð var dregið af.
Sigurmark leiksins kom á 81. mínútu eftir fína sókn. Haukur Heiðar gerði mjög vel í að ná fastri sendingu þjálfarans
alveg við endalínu hægra megin og lagði hann út í teiginn á “framherjann“ knáa Janez Vrenko, sem gerði allt rétt, lagði
boltann fyrir sig með einni snertingu og setti hann svo öruggt í fjærhornið, alveg út við stöng. 2-1.
KA-menn héldu sjó og sigldu sigrinum örugglega í höfn en þetta var þriðji heimasigur liðsins í röð og hefur liðið skorað
8 mörk í þessum þremur leikjum. Samtals hefur liðið skorað 21 mark í sumar, tveimur mörkum færri en topplið Leiknis og liðinu vantar
aðeins 11 mörk upp á til að jafna árangur síðasta tímabils hvað varðar markaskorun. Hitt er annað mál að liðið er að
fá á sig of mörg mörk og oftar en ekki fyrir hálfgerðan klaufaskap. KA-menn eru 12 stigum á eftir toppliðinu líkt og á síðasta
tímabili þegar liðið endaði í fimmta sæti deildarinnar. Spilamennska liðsins hefur snarbatnað síðan síðari umferð
mótsins hófst og liðið er farið að skora mörk á ný.
Næstu leikir eru gegn HK á útivelli föstudaginn 13. ágúst kl. 19:00, gegn Fjarðabyggð á heimavelli þriðjudaginn 17. ágúst
kl. 19:00 og gegn Fjölni á útivelli laugardaginn 21. ágúst kl. 14:00. Þetta eru allt leikir sem liðið hefur fulla burði til að vinna en
strákarnir þurfa okkar aðstoð. Það hefur myndast góð stemmning á síðustu heimaleikjum, mörgum hverjum, og við ætlum okkur
bara að bæta í. Nú hvetjum við KA-menn fyrir sunnan til að mæta á þessa tvo síðustu leiki liðsins á
höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili um leið og við hvetjum fólk til að halda áfram að mæta á Akureyrarvöll og
skemmta sér með okkur.
Mætum gul og glöð!
Höfum gaman, syngjum saman!
Áfram KA!