Sigurður Nói skrifar undir út 2028

Sigurður Nói Jóhannsson skrifaði í dag undir samning við knattspyrnudeild KA út sumarið 2028. Eru þetta afar jákvæðar fréttir en Sigurður Nói er gríðarlega efnilegur og spennandi leikmaður sem er að koma uppúr yngriflokkastarfi KA.

Sigurður Nói, sem er aðeins 15 ára gamall, er sóknarsinnaður leikmaður sem á að baki sex landsleiki með U15 og U16 ára landsliðum Íslands og gert í þeim eitt mark. Hann er tæknilega mjög góður leikmaður sem hefur mikið markanef og klárt að hann á framtíðina fyrir sér.

Á nýliðnu sumri var hann tvívegis í hóp hjá meistaraflokksliði KA og þá er hann í U19 ára liði KA sem leikur í UEFA Youth League en KA liðið sækir stórlið PAOK heim til Grikklands í næstu viku.

Fyrr á árinu fór Sigurður ásamt þeim Snorra Kristinssyni, Bríet Fjólu Bjarnadóttur og Hafdísi Nínu Elmarsdóttur á reynslu hjá sænska stórliðinu Malmö FF en félagið er sigursælasta karlalið í sögu Svíþjóðar.

Við óskum bæði Sigurði og knattspyrnudeild til hamingju með samninginn og hlökkum til að fylgjast áfram með framgöngu þessa öfluga kappa í gula og bláa búningnum.