Skellur á Skaganum

KA-menn máttu þola skell gegn frísku Skagaliði á Akranesi í gær. Þjóðhátíðarstemning var á Akranesi í gær af þeim sökum að félagið fékk afhentan bikarinn fyrir sigur í 1. deildinni að leik loknum. KA-menn hefðu hins vegar getað spillt gleðinni eilítið með góðri frammistöðu inni á vellinum, en það fór heldur betur á annan veg.

Skagamenn settu yngri stráka í byrjunarliðið, eins og vænta mátti þar sem úrvalsdeildarsætið er í höfn fyrir tæpum mánuði. Það kom þó ekki að sök því þeir voru sem fyrr sprækir. Skagamenn settu fyrsta markið á elleftu mínútu og þar var að verki Fannar Freyr Gíslason. Þar við sat í leikhléi - 1-0.

Flugeldasýning Skagamanna fór í gang í seinni hálfleiknum. "Öldrunardeildinni" var skipt inn á - Dean Martin, Hirti Júlíusi Hjartarsyni og Stefáni Þór Þórðarsyni og þá fóru hlutirnir að gerast. Englendingurinn Mark Doninger skoraði annað markið á 50. mínútu og síðan var komið að þætti Hjartar Júlíusar. Hann setti þrennu á 78., 90. og 93. mínútu og staðan orðin 5-0!

Þetta var afleitur laugardagur hjá KA-liðinu og best að gleyma honum sem fyrst. Akranesvöllur hefur reyndar lengi verið einstaklega erfiður fyrir KA-menn, vert er að minnast þess að í síðustu umferðinni í fyrra tapaði KA 1-5 fyrir Skagamönnum á Skaganum. Í fyrri umferðinni í sumar tapaði KA á Akureyrarvelli 4-1 fyrir Skaganum og samanlögð markatala úr leikjum sumarsins er því 1-9. Það verður að segjast eins og er að fyrir KA er lítil eftirsjá að Skagamönnum upp í Pepsídeildina og er þeim óskað góðs gengis þar.

Ekki bætti úr skák í gær að Jón Heiðar Magnússon var rekinn út af á 88. mínútu og er þetta hans önnur brottvísun á rétt röskum mánuði. Hann verður því ekki með KA-liðinu í síðustu umferðinni á laugardaginn.

Þessi afleiti laugardagur á Akranesi er að baki og best að staldra ekki lengur við hann. Enn leikur er eftir og er það hreinlega krafa að leikmenn taki sig saman í andlitinu og klári mótið með sóma. Liðið er í áttunda sæti en getur með góðum úrslitum um næstu helgi gegn BÍ/Bolungarvík komist upp í 7. sæti - ef Þróttarar misstíga sig gegn Fjölni. Það er ljóst að KA lendir ekki neðar en í 8. sæti deildarinnar, en í fyrra endaði liðið í 9. sæti.