Snorri vann gull með U17 í Ungverjalandi

Snorri tók þátt í öllum leikjum Íslands og stóð sig með mikilli prýði
Snorri tók þátt í öllum leikjum Íslands og stóð sig með mikilli prýði

Snorri Kristinsson var í lokahóp U17 ára landsliðs Íslands í knattspyrnu sem lék á Telki Cup í Ungverjalandi á dögunum. Fjögur lið léku á mótinu en auk Íslands tóku Ungverjar, Írar og Tyrkir þátt.

Í fyrsta leik mættu strákarnir heimamönnum í Ungverjalandi og gerðu liðin markalaust jafntefli en Snorri kom inná á 62. mínútu leiksins. Snorri kom svo beint inn í byrjunarliðið í næsta leik þar sem íslenska liðið vann góðan 2-1 sigur á Írlandi. Strákarnir gátu því tryggt sér sigur á mótinu með sigri á Tyrkjum í lokaleiknum og var Snorri aftur í byrjunarliðinu. Það tókst þar sem íslenska liðið vann frábæran 2-1 sigur og endaði þar með sjö stig af níu mögulegum.

Frábær árangur hjá strákunum og stóð okkar maður sig virkilega vel en Snorri hefur þrátt fyrir ungan aldur verið að brjóta sér leið inn í meistaraflokkslið KA en hann hefur tekið þátt í fjórum leikjum í deild og bikar og hafa þeir allir unnist. Óskum Snorra innilega til hamingju með titilinn með landsliðinu og verður gaman að fylgjast með framgöngu hans í náinni framtíð.