Soccerade: KA 2 leikur gegn KF

Á laugardaginn mun KA 2 spila gegn KF (KS/Leiftur) kl. 14.15 í Boganum.


KA 2
KA 2 byrjuðu mótið vel með 3-2 sigri gegn Dalvík/Reyni þar sem Arnór Egill, Hallgrímur Mar og Viktor voru markaskorarar liðsins. Í þeim leik var uppistaðan í byrjunarliðinu meistaraflokksmenn sem byrjuðu ekki með KA1 daginn áður. Líklegt þykir að einhverjir af þeim verði með gegn KF en leikmenn 2. flokks fá þó meiri ábyrgð og spiltíma. Gegn Dalvík voru átta leikmenn sem ekki eru enn gjaldgengir í 2. fl í byrjunarliði, tveir leikmenn á 2. fl aldri og markmaðurinn Fannar Hafsteinsson er einungis í 3. fl. Bekkurinn var allur skipaður leikmönnum úr 2. fl. 

KF
Lárus Orri Sigurðsson tók við liðinu í haust og hefur liðið sýnt ágætis spilamennsku undir hans stjórn. Í desember þá töpuðu þeir 3-2 gegn okkur og 1-0 gegn Þór þar sem KF voru manni færri í um 30. mín. KF hafa oft ekki verið sérstakir á þessum tíma árs en eflst með hverjum leiknum þegar vora tekur. Fjallbyggðingar kenndu sumir hverjir um að hópurinn æfði ekki saman yfir veturinn en núna þegar gönginn eru komin þá æfa þeir í fyrsta sinn saman á öllum æfingum. Einnig þá hafa þeir ekki verið búnir að fá alla sína leikmenn í janúar/febrúar en virðist hópurinn sem spilaði í desember vera heldur sterkari en sá sem þeir hafa haft undanfarinn ár á þessum tíma. Undirritaður telur þess vegna að Fjallbyggðingar hafi enga afsökun núna á slökugengi í Soccerade og býst við að þeir séu með sterkari liðum í keppninni. Einhverjir leikmenn liðsins búa yfir veturinn á höfuðborgasvæðinu og veikist liðið talsvert ef þessir leikmenn mæta ekki í leikina. Lykilmaður liðsins er fyrrverandi þjálfari liðsins Ragnar Hauksson en hann er liðinu mikilvægur hvort sem hann spilar í vörninni eða í fremstu víglínu. Þórður Birgisson er annar reynslubolti sem skoraði 11 mörk í 17. leikjum seinasta sumar. Hann hefur verið á láni hjá KF seinustu tvö sumur frá HK en samkvæmt mínum heimildum stefnir hann á að spila með þeim einnig næsta sumar.