4 dagar: KA-menn spá í spilin fyrir komandi leiktíð (1/3)

Nú eru einungis 4 dagar í að flautað verður til leiks í 1. deildinni og fékk ég því 9 góða KA menn til að spá í spilin fyrir komandi sumar. Fyrstir ríða á vaðið Egill Ármann (þjálfari), Aðalbjörn Hannesson (þjálfari) og Orri Gústafsson sem lék með KA í fyrra en tók sér frí frá fótboltanum og hélt til Japans í nám í sjávarútvegsfræði.

Egill Ármann Kristinsson: 2.-5. sæti

Ég get ekki sagt annað en mér lítist bara vel á sumarið í sumar. Liðið hefur fengið góðan liðsstyrk fyrir sumarið með góðum KA-mönnum með alvöru hjarta, Gunnar Val og Jóa Síla. Ég vonast eftir því að sjá meiri stöðugleika í liðinu í sumar heldur en var fyrripart móts í fyrra og á það eftir að koma til með reynslumeiri leikmönnum. KA á að vera með lið núna sem getur barist um að fara upp. Ég er ekki viss um að þeir nái að vinna deildina en þeir verða í 2. -5. sæti. Ég trúi því að það komi svo framherji á næstu dögum sem verður 10-15 marka maður og verður Hallgrímur duglegur að mata hann í sumar. Að lokum:  Ef stuðningsmenn vilja geta gert kröfur um árangur þá verða þeir að mæta á völlinn. Nú er tíminn að snúa við blaðinu hjá KA, enda langt síðan liðið hefur verið skipað jafn mörgum uppöldum leikmönnum. 


Aðalbjörn Hannesson: 2. sæti

Ég hef góða tilfinningu fyrir sumrinu hjá okkar mönnum í KA þrátt fyrir að margir ágætir leikmenn sem voru að spila seinasta sumar verða ekki með okkur, þar á meðal Haukur Heiðar, sem hefur verið einn af okkar bestu mönnum undanfarin ár. Það gefur liðinu mikið að hafa fengið Jóa Helga og Gunnar Val aftur heim, en þeir koma með mikla reynslu sem margir telja að liðið hafi vantað undanfarin ár til að blanda sér í toppbaráttuna af alvöru. Eins og svo oft áður þá vantar liðið framherja og veit ég að þjálfarateymið og stjórnin eru að leita að manni sem getur skorað helst yfir 10 mörk fyrir okkur í sumar. Það er margt sem þarf að ganga upp til að við lendum í efstu tveimur sætunum en möguleikinn er vissulega til staðar. Ég er bjartsýnn og segi 2. sæti svo framarlega sem að Gunni Nella og félagar finna seinasta púsluspilið sem vantar til að klára dæmið. 


Orri Gústafsson: 2.-4. sæti 

Ég er bjartsýnn fyrir næsta tímabil og spái því að við blöndum okkur í toppbaráttuna. Hópurinn er flottur og nú eru komnir fleiri eldri og reynslumeiri leikmenn og það er það sem mér fannst vanta í fyrra. KA GANBATTE!