Hjörvar Maronsson: 2. sæti
Við erum með lið sem ég hef mikla trú á, við erum loksins komnir með réttan aldur í liðið okkar, blöndu af reyndum leikmönnum og svo ungum og efnilegum leikmönnum sem eru hugraðir í að komast langt.
Leikmenn eins og Sandor, Elmar, Gunni Valur, Jói Síló og Gilmour eru leikmenn sem ég tel að hafi getu og hugarfar til þess að koma okkur upp. Með þeim eigum við mjög efnilega leikmenn sem eiga eftir að springa út í sumar með hjálp þeirra reyndu.
Ef allir KA menn standa saman, þá eru allir vegir færir!
Siguróli Sigurðsson: 2.sæti
Ég spái KA 2. sæti á komandi tímabili. Ég sé jafnvel fram á mikla spennu á lokakaflanum þar sem við munum tryggja okkur sætið góða í lokaleik síðustu umferðarinnar, með jafntefli. Ég veit ekki af hverju en ég hef einhverja tilfinningu.
KA-liðið er skemmtilega byggt upp af heimastrákum, ungum strákum og myndarlegum Húsvíkingum. Þetta er blanda sem getur ekki klikkað og ég held að Gulli muni ná því besta út úr hópnum í sumar. Við munum vinna báða leikina gegn 603, nokkuð sannfærandi, enda hefur Gulli ekki enn tapað fyrir þeim.
Ég er spenntastur fyrir að sjá Hallgrím Mar blómstra á kantinum í sumar og ég er einnig nokkuð viss um að Elmar Dan muni vera lykilleikmaður liðsins, enda jafn glæsilegur innan sem utan vallar.
Hlynur Örn Ásgeirsson: 1.sæti
Þetta verður mjög áhugavert sumar. Við erum með nokkuð þéttan hóp og það er komin meiri reynsla í liðið frá síðasta sumri með tilkomu Gunna Vals og Jóa Helga. Síðan er Elmar með frá upphafi móts.
Við erum með öfluga varnar- og miðjumenn og eldfljóta kantmenn sem geta valdið usla hjá öllum liðum í þessari deild. Ef við náum að nýta okkur þessi vopn eru okkur allir vegir færir í deildinni í sumar. Ég tel að KA ætti alveg að geta blandað sér í baráttuna um sæti í Pepsi-deildinni á næsta tímabili.
Að því sögðu spái ég KA sigri í 1. deildinni í ár. En til þess að svo megi verða þurfa allir að leggjast á eitt og þar ætla ég svo sannarlega ekki að láta mitt eftir liggja. Áfram KA!!!