Steindór Gunnarsson látinn

Steindór, Dorri, í veiðiferð með strákunum í m.fl. KA sumarið 2010
Steindór, Dorri, í veiðiferð með strákunum í m.fl. KA sumarið 2010
Steindór Gunnarsson, einn af dyggustu félagsmönnum Knattspyrnufélags Akureyrar, lést á Kanaríeyjum aðfararnótt 19. mars á 64. aldursári. Steindór Gunnarsson fæddist 30. mars 1947. Alla tíð vann hann gríðarlegt starf fyrir KA, sem ekki var alltaf sýnilegt.

Hann var einn af þessum öflugu liðsmönnum sem lagði sín lóð á vogarskálarnar í þágu KA á bak við tjöldin. Var ómetanlegur liðsmaður sem vildi hag félagsins sem mestan. Einkum naut knattspyrnan í KA krafta hans í ríkum mæli. Alltaf var hann mættur á Akureyrarvöll til þess að sjá sína gulbláu liðsmenn spila og oftar en ekki slóst hann í för með liðinu í útileiki. Þyrfti að keyra strákana í útileiki var Steindór mættur boðinn og búinn.  Allt í þágu
strákanna og KA.

Steindór Gunnarsson var gulur og blár í gegn. Einstakur maður og félagi. Knattspyrnufélag Akureyrar syrgir fallinn félaga og vottar eftirlifandi móður hans, Guðrúnu Sigbjörnsdóttur, systkinum hans, Kristínu og Gunnari,
og öðrum ástvinum dýpstu samúð.

-ÓÞH