Stelpurnar í Þór/KA biðla til bæjarbúa

Í gær, fimmtudaginn 24 okt, datt bréf og gíróseðill inn um bréfalúgur bæjarbúa þar sem aðstandendur sameinaðs liðs Þór/KA í knattspyrnu biðla til bæjarbúa um að styrkja liðið með því að greiða gíróseðilinn. Við hér á síðunni hvetjum alla til þess að styrkja stelpurnar sem hafa staðið sig mjög vel undanfarin ár innan sem utan vallar.

Í bréfinu sem forráðamenn liðsins sendu frá sér segir m.a. 

Íþróttafélögin Þór og KA hafa um nokkurra ára skeið teflt fram sameiginlegu liði í meistara- og öðrum flokki knattspyrnu kvenna. Að daglegri stjórn liðsins kemur kvennaráð og fyrir um þremur árum setti kvennaráð fram markmið um uppbyggingu meistaraflokks og hefur verið unnið samkvæmt þeim. Niðurstaðan er besti árangur í sögu knattspyrnu kvenna á Akureyri nú í sumarlok, eða öruggt fjórða sæti í Landsbankadeild kvenna. Slíkum árangri verður ekki náð nema með öflugri umgjörð, góðum þjálfurum, metnaðarfullu starfi yngri flokka félaganna, hæfileikaríkum stúlkum í meistaraflokki, og stuðningi frábærra fylgismanna. Allt þetta byggir á fjárstuðningi og velvilja sem stelpurnar hafa notið í heimabyggð sinni.En lokamarkmiðinu er ekki náð. Nú er að vinna að stöðuleika liðsins þannig að Þór/KA verði að staðaldri spilandi um efstu sæti deildarinnar. Er það von okkar sem að liðinu standa að þið sjáið ykkur fært að taka þátt í verkefninu með okkur með því að greiða meðfylgjandi greiðsluseðil.

Athygli er vakin á því að öll innkoma sem inn kemur rennur beint og óskipt til kvennaliðs Þór/KA.