Á Blönduósi spila á morgun kl. 14.00 KA-strákar í A-liði 3. flokks karla úrslitaleik við Þrótt Reykjavík um sigur í C-deildinni og um leið réttinn til þess að spila úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn í 3. flokki karla. Það er skammt stórra högga á milli hjá strákunum því þeir voru í gær austur á landi og lögðu þar Fjarðabyggð/Leikni með einu marki gegn engu og tryggðu þriðja flokki þar með sæti í B-deild að ári, sem er gríðarlega mikilvægur áfangi. Sigurinn í gær gaf strákunum líka von um að fara í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn en til þess þurfa þeir að sigra Þrótt Reykjavík á Blönduósi á morgun.
Á Hlíðarenda spilar A-lið KA í 5. flokki kvenna kl. 16 á morgun um Íslandsmeistaratitilinn í þessum flokki. Stelpurnar eru staðráðnar í því að leggja sig hundrað prósent fram í leiknum og eru allir KA-menn á höfuðborgarsvæðinu hvattir til þess að mæta á völlinn og öskra stelpurnar til sigurs.
Á Akureyravelli taka KA-strákar á móti Blikum á morgun kl. 12 í úrslitakeppni 4. flokks karla. Hér er um hreinan úrslitaleik að ræða um hvort KA kemst í úrslitaleik Íslandsmótsins um næstu helgi. KA-strákarnir eru búnir að spila tvo leiki um helgina og vinna þá báða - í gær sigruðu þeir Þrótt R örugglega með fimm mörkum gegn engu og í dag höfðu þeir betur gegn nágrönnum okkar í Þór með tveimur mörkum gegn einu. Blikar sigruðu Þórsara í gær 6-1 en gerðu síðan jafntefli í dag við Þróttara 3-3. Allir KA-menn á Akureyri eru hvattir til að fjölmenna á Akureyrarvöll kl. 12 á morgun og hvetja strákana til sigurs og að komast í úrslitaleik Íslandsmótsins í knattspyrnu í 4. flokki A-liða. B-liðið í 4. flokki er einnig í góðum gír og er það komið í úrslitakeppni Íslandsmótsins sem fer fram syðra um næstu helgi.
Fjórða liðið sem verður í eldlínunni á morgun í úrslitakeppni Íslandsmótsins í fótbolta er A-lið 4. flokks kvenna. Stelpurnar fengu á sig 0-5 skell í gær gegn Blikum en í dag var annað uppi á teningnum og þær sigruðu Grindavíkurstelpur 3-0. Síðasti leikur stelpnanna verður gegn FH í Kaplakrika kl. 12 á morgun.
Doktorinn sytður að sjálfsögðu við bakið á öllum KA mönnum og var búinn til auglýsing fyrir leik 5.kvk gegn Val á morgun!