Og við höldum ótrauð áfram stuðningi okkar við KA-menn sem hafa staðið sig með prýði í síðustu leikjum. Þeir hafa
ásamt toppliði Leiknis skilað flestum stigum í hús í síðari umferð mótsins eða 12 talsins af 15 mögulegum. Sigrar heima gegn
Þrótti R., ÍR og Njarðvík ásamt útisigri á HK hafa skilað okkar mönnum upp um 5 sæti á töflunni, úr
því 11. og upp í það 6.
Á morgun, þriðjudaginn 17. ágúst munu okkar menn mæta Fjarðabyggð á heimavelli KA, Akureyrarvelli.
Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að stuðningsmenn liðsins hafa þjappað sér saman bæði fyrir leikina og á vellinum
sjálfum. Nú er svo komið að KA-menn hafa sprengt utan af sér það húsrúm sem pizzastaðurinn Bryggjan við Skipagötu hefur yfir að
ráða og því hafa þeir brugðið á það ráð í félagi við forsvarsmenn Bryggjunnar að færa herlegheitin yfir
í húsnæði systurstaðs Bryggjunnar, Pósthúsbarinn, sem rúmar mun fleiri.
Dagskrá hefst kl. 17:30 en m.a. verður boðið upp á ljósmyndasýningu frá meistaraflokksstarfinu í sumar, andlitsmálningu, töflufund
með aðstoðarþjálfara KA og hugsanlega eitthvað fleira.
Tilboð verður á mat og drykk.
Ráðgert er að dagskrá verði lokið um kl. 18:30 og þá verði gengið fylktu liði á völlinn en leikurinn hefst kl. 19:00.
KA-menn! Gulir og glaðir!
Mætum öll og fylgjum eftir flottum árangri síðustu leikja!
Höfum gaman, syngjum saman!
Áfram KA!