Umfjöllun: KA - Víkingur Ó.

Á laugardaginn sl. mættust KA-menn og Víkingar frá Ólafsvík í lokaleik sumarsins á flottum Akureyrarvellinum. Vitað var að með sigri myndi KA gulltryggja fjórða sætið og það gerðu þeir með 1-0 sigri. Þrátt fyrir aðeins eins marks sigur spilaði KA-liðið fínan fótbolta og óheppnin ein gerði það að verkum að mörkin urðu ekki fleiri. Umfjöllun með myndum.

KA 1 - 0 Víkingur Ólafsvík
1-0 Steinn Gunnarsson ('40)

Umfjöllun á Fótbolta.net
Leikskýrslan
Lokastaða 1. deildar 2008

Sandor

Haukur Hei. - Elmar (F) - Norbert - Hjalti
Túfa
Steinn G. - Dean M. - Andri F. - Ingi F.
Orri G.


Varamenn: Steinþór Már Auðunsson (M), Davíð Rúnar Bjarnason, Gyula Horvarth, Arnór Egill Hallsson(Orri Gústafsson, 59. mín), Magnús Blöndal(Ingi Freyr Hilmarsson, 69. mín).

Örlítill vindur var á Akureyrarvelli þegar síðasti leikur sumarsins fór fram. Annars var ágætt veður og aðstæður til knattspyrnuiðkunar til fyrirmyndar. 

KA-liðið byrjaði leikinn betur og átti Dínó fyrsta færi leiksins er hann skallaði yfir mark Víkinga eftir sendingu frá Andra Fannari. Stuttu síðar munaði hársbreidd að Steinn næði að skora en svo var ekki að þessu sinni. Á 13. mínútu átti Dínó frábæra sendingu frá hægri kanti á Inga Frey sem náði að teygja sig í boltann og setja hann á markið en markmaður Víkinga mátti hafa sig allan við að verja boltann til varnarmanns Víkinga.

Eina færi Víkinga í fyrri hálfleik var þegar að þeir komust upp að endalínu og sentu góðan bolta inn í en sóknarmaður Víkinga gerði sér lítið fyrir og skallaði boltann í innkast.

Orri og Haukur Heiðar áttu góðan samleik um miðjan fyrri hálfleik sem endaði með að Haukur átti góða stungusendingu á Orra sem var dæmdur rangstæður, en tæpt var það. Stuttu síðar var Haukur Heiðar aftur á ferðinni en þá átti hann góða sendingu frá hægri á kollinn á Inga Frey sem skallaði boltann rétt fram hjá.

Á 40. mínútu þá skoraði Steinn Gunnarsson eitt fallegasta mark sumarsins er hann spyrnti knettinum óverjandi ofarlega í hornið rétt fyrir utan vítateiginn. Þetta mark var mjög sanngjarnt en KA voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik.

Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir komst Orri inn fyrir vörn Víkinga en markmaðurinn náði að verja, þetta var þó ekki alveg opið færi þar sem að varnarmaður Víkinga setti góða pressu á hann og Orri á leið frá markinu.

Þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik átti Dínó sendingu inn í þar sem að Steinn skallar boltann framhjá. Stuttu síðar átti Dínó góða sendingu á Orra sem tæklaði boltann í varnarmann og útaf í horn. Dínó tók frábært horn á Elmar Dan sem skallar rétt framhjá úr úrvalsfæri.

Á 57. mínútu varði Sandor ágætlega í horn, Víkingar tóku hornið og fá upp úr því ágætt færi sem að KA bjargar í horn. Þeir eiga aftur fínt horn sem þeir skalla í horn. Líklega besti kafli Víkinga í leiknum.

Arnór Egill kom inn fyrir Orra þegar hálftími var eftir, hann var ekki lengi að koma sér inn í leikinn en hann átti stórhættulega sendingu inn í teiginn aðeins mínútu eftir að hann kom inná.

Á 64. mínútu báðu áhorfendur um ruðning en á þeim tímapunkti var maður ekki viss á hvaða íþrótt maður var að horfa, handbolta eða fótbolta, maður spyr sig?

Þegar 25 mínútur voru eftir komust Víkingar í dauðafæri, sóknarmaður þeirra einn gegn Sandori en Sandor bjargaði frábærlega. Í næstu sókn klobbaði Arnór Egill einn og fór fram hjá öðrum og var kominn í fínt skotfæri en skotið var afleitt. Stuttu síðar átti hann annan góðan sprett með boltann. Arnór vann aukaspyrnu sem að Dínó tók strax, markmaðurinn var út við stöng en Andri Fannar náði ekki að skalla boltann, kjörið marktækifæri.

Þegar tíu mínútur voru eftir átti Dínó sendingu á Magnús Blöndal sem að skaut í hliðarnetið úr mjög góðu færi. Stuttu síðar átti Steinn frábæra stungusendingu á Dínó sem komst einn á móti markmanni en skot hans fór rétt framhjá. Seinasta markverða í leiknum var enn einn góður sprettur hjá Arnóri Agli með boltann en hann fór þá fram hjá varnarmanni og komst upp að endarmörkum, sendi góðan bolta fyrir mark Víkinga en því miður var varnarmaður þar fyrir.

Það er ekki hægt að segja annað en að um mjög sanngjarnan sigur hafi verið um að ræða. KA-liðið betri aðilinn allan leikinn. Það var ekki einn leikmaður sem ekki stóð fyrir sínu. Ánægjulegt var að sjá hvað ungu strákarnir voru að leika vel, ber þá helst að nefna Arnór Egil sem kom inná. 

Ummæli eftir leik: - Orri Gústafsson
,,Mér fannst þetta mjög sanngjarn sigur, börðumst vel. Héldum stöðu mjög vel. Þeir áttu í raun ekki mörg færi nema í föstum leikatriðum. Við hefðum reyndar átt að klára leikinn miklu fyrr. Til dæmis áttu menn eins og Maggi Blö dauðafæri. Við vorum margir úr 2. flokknum sem fengum séns í leiknum og stóðum okkur allir mjög vel og vonandi náum við að byggja á þessu fyrir næsta sumar."
Ertu sáttur með gengi liðsins í sumar?
,,Já já við komum mörgum óvart til dæmis var okkur spáð í 7. eða 8. sæti og sýndum öllum að við getum og viljum spila góðan fótbolta. Svo er líka alltaf gaman að vera á undan Þór.
Þökkum stuðninginn í sumar en Vinir Sagga hafa staðið sig eins og hetjur í stuðningnum."

- Aðalbjörn Hannesson