Svekkjandi tap gegn Stjörnunni í Lengjubikarnum

Jóhann Helgason og Elmar Dan Sigþórsson í kröppum dansi í Boganum í dag. Mynd: Sævar Geir Sigurjónss…
Jóhann Helgason og Elmar Dan Sigþórsson í kröppum dansi í Boganum í dag. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson.

Það verður að segja hlutina eins og þeir eru; 2-3 tap KA gegn Stjörnunni í Boganum í dag í fyrstu umferð Lengjubikarsins var svekkjandi og ósanngjarnt. KA-menn voru sterkari aðilinn í leiknum og sköpuðu sér miklu fleiri færi en úrvalsdeildarlið Stjörnunnar.

Byrjunarlið KA var þannig skipað í dag að í markinu var Sandor Matus. Í hjarta varnarinnar stóðu Gunnar Valur Gunnarsson og Haukur Hinriksson, bakverðir voru Ómar Friðriksson og Jón Heiðar Magnússon, á miðjunni voru Þórður Arnar Þórðarson, Brian Gilmour og Jóhann Helgason, á köntunum þeir Bjarki Baldvinsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson og fremstur var gamli senterinn Elmar Dan Sigþórsson.

KA-menn gáfu tóninn strax í byrjun leiks og pressuðu Stjörnumenn framarlega. Það kom því ekki á óvart að KA kæmist yfir í leiknum. Það gerðist á 14. mínútu. Ómar Friðriksson átti flotta sendingu á Bjarka, sem aftur kom boltanum yfir á Hallgrím Mar. Hann átti gott skot á markið frá vinstri, Ingvar markvörður Stjörnunnar hélt ekki boltanum og Ómar var mættur á fjarstöngina og setti boltann í netið. Frábærlega spilað og Stjörnumenn klóruðu sér í kollinum.

Næstu mínútur skiptust liðin á að sækja en KA-menn voru þó miklu líklegri til að bæta við mörkum. Það var því sem blaut tuska í andlit okkar manna þegar Garðar Jóhannsson setti boltann auðveldlega í markið eftir að rangstöðutaktík KA brást illilega.

KA-menn létu þó ekki bugast við þetta og héldu áfram þar sem frá var horfið og þjörmuðu ítrekað að Stjörnumarkinu. Á markamínútunni, þeirri 43., átti Jóhann Helgason frábæra sendingu frá vinstri og á fjarstönginni var Elmar Dan mættur og skallaði botann í netið. Staðan því orðin 2-1 og heimamenn verðskuldað með forystu í hálfleik.

Stjörnumenn hófu seinni hálfleikinn með látum, án þess þó að skapa sér nein færi. Á 58. mínútu fékk Stjarnan aukaspyrnu um 3 metrum fyrir utan vítateiginn, hægra megin. Halldór Orri Björnsson,  fyrirliði Stjörnumanna, tók spyrnuna og setti hann glæsilega hægra megin við varnarvegginn og í bláhornið. Staðan því orðin 2-2.

KA-menn létu þetta ekki slá sig út af laginu og sköpuðu sér áfram nokkur frábær færi, en tókst ekki að koma boltanum í netið.

Í síðari hálfleik fóru Elmar Dan og Bjarki útaf og inn komu Jóhann Örn og Guðmundur Óli. Þeir síðarnefndu voru mjög nálægt því að koma KA yfir, en Guðmundi Óla brást bogalistin í upplögðu færi.

Á 83. mínútu fékk Stjarnan aukaspyrnu út við endamörk hægra megin. Flott bananaspyrna kom fyrir markið og rataði beint á kollinn á Halldóri Orra, sem lúrði við fjærstöngina og stangaði hann boltann inn. Þarna sváfu KA-menn illa á verðinum og steingleymdu að dekka Halldór Orra.

Þrátt fyrir stífa pressu síðustu mínúturnar tókst KA ekki að jafna leikinn og niðurstaðan því svekkjandi tap gegn úrvalsdeildarliði Stjörnunnar. KA var betri aðilinn í leiknum, þegar á heildina er litið, en reynsla og klókindi hættulegustu manna Stjörnunnar, Garðars Jóhannssonar og Halldórs Orra Björnssonar, tryggði gestunum sigur í þessum leik. En KA-liðið sýndi svo ekki verður um villst að það er á réttri leið og það er hægt að taka fjölmargt jákvætt úr þessum leik.

Næsti leikur KA í Lengjubikarnum verður gegn ÍR-ingum í Boganum nk. laugardag kl. 17.15.