Sviss vann Ísland í milliriðli Evrópumótsins

Íslensku stelpunum í U-17 landsliðinu í fótbolta tókst ekki að fylgja eftir góðum sigri á Englandi í milliriðli Evrópumótsins. Í gær urðu þær að sætta sig við 0-1 tap gegn Sviss. Í hinum leik riðilsins unnu þær ensku belgísku stallsystur sínar. Það er því allt opið í riðlinum fyrir síðustu umferðina.

Lára Einarsdóttir úr KA, leikmaður Þórs/KA, var í byrjunarliðinu í gær eins og í fyrsta leiknum gegn Englandi.

Síðasta umferðina í milliriðlinum verður á miðvikudaginn, 18. apríl. Þá mætir íslenska liðið því belgíska og England mætir Sviss. Belgía er búin að missa af lestinni, en ljóst er að baráttan um efsta sætið, sem gefur sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins, stendur á milli Sviss, Íslands og Englands. Fyrir síðustu umferðina stendur Sviss best að vígi með fjögur stig, en England og Ísland eru með þrjú stig.