Við þökkum Andra Fannari Stefánssyni kærlega fyrir hans frábæra framlag sem leikmaður KA!
Á sama tíma er mjög ánægjulegt að KA mun áfram njóta starfskrafta hans en Andri Fannar er afreksþjálfari 13–16 ára drengja og aðalþjálfari 5. flokks drengja og gegnir þar með lykilhlutverki í framtíð félagsins.
Andri Fannar lék sinn fyrsta deildarleik fyrir KA árið 2008, þá aðeins 17 ára gamall og vakti strax verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína. Hann gekk í raðir Valsmanna árið 2010 þar sem hann varð tvívegis Íslandsmeistari og tvívegis Bikarmeistari.
Andri sneri loks aftur heim fyrir sumarið 2019 og hefur síðan verið mikilvægur hluti í uppbyggingu KA liðsins sem kristallast í þeim frábæra árangri er liðið tryggði sér þátttökurétt í evrópu með því að enda í 2. sæti í Bestu deildinni 2022, landa Bikarmeistaratitlinum síðasta sumar að ógleymdri frábærri frammistöðu liðsins í UEFA Conference League árið 2023 og á nýliðnu sumri.
Andri Fannar gerði þetta stórkostlega mark í 2-0 sigri á Þór sumarið 2009
Í sumar náði Andri Fannar þeim merka áfanga að spila 200 leiki í efstu deild. Hann lék alls 186 leiki fyrir KA í deild, bikar, meistarakeppni KSÍ og Evrópukeppni og skoraði í þeim 13 mörk.
Þá hefur Andri unnið mikið starf í kringum félagið og á klárlega stóran þátt í því að lyfta starfi KA upp á hærra plan. Hann fór snemma að þjálfa yngriflokka og á ansi mikið í fjölmörgum iðkendum KA í gegnum tíðina.
Við þökkum Andra kærlega fyrir hans frábæra framlag til KA á vellinum og hlökkum til að vinna áfram náið með honum í að byggja upp yngriflokkastarf okkar enn frekar.