Tap gegn Keflavík í Reykjaneshöllinni

KA varð að sætta sig við 2-1 tap gegn úrvalsdeildarliði Keflavíkur í Lengjubikarnum í Reykjaneshöllinni í gær. Jóhann Helgason skoraði mark KA í síðari hálfleik.

Byrjunarlið KA var þannig skipað að í markinu var Sandor, miðverðir voru Haukur Hinriksson og Gunnar Valur Gunnarsson. Vinstri bakvörður var Jón Heiðar Magnússon og Kristján Freyr Óðinsson var hægra megin. Á miðjunni þeir Túfa, Jóhann Helgason og Davíð Rúnar Bjarnason, Bjarki Baldvinsson var á vinstri kantinum og Ómar Friðriksson á þeim hægri og Guðmundur Óli Steingrímsson fremstur.

Það var engu líkara en að KA-liðið væri ekki mætt til leiks í Reykjaneshöllinni. Liðinu gekk afar illa að halda boltanum innan liðsins, móttökur voru slæmar og sömuleiðis sendingar. Keflvíkingar gengu á lagið og nýttu sér þetta með því að pressa KA-liðið framarlega á vellinum. Eftir rösklega tuttugu mínútna leik bar sóknarþungi Keflvíkinga árangur og þá setti Bojan Stefán Ljubicic tvö mörk með þriggja mínútna millibili.

KA-menn fóru þá loksins að vakna og áttu nokkrar hættulegar fyrirgjafir fyrir mark Keflavíkur en það vantaði að skila boltanum inn fyrir línuna.

Staðan því 2-0 í hálfleik fyrir heimamenn og ljóst að margt þyrfti að bæta Og það tókst að laga ýmislegt. Allt annað KA-lið mætti til leiks í síðari hálfleik. Ákveðnin var mun meiri og liðinu tókst nú að spila betur saman og halda boltanum innan liðsins.

Ein breyting var gerð í hálfleik, Davíð Rúnar, sem hafði verið fremstur á miðjunni, fór útaf og inn kom Brian Gilmour, en hann hefur átt við meiðsli að stríða og af þeim sökum var hann ekki í byrjunarliðinu í gær. Eftir um tíu mínútna leik í síðari hálfleik átti KA stórglæsilega sókn með hnitmiðuðum sendingum manna í milli. Skyndilega var Jóhann Helgason í góðu færi í teignum og hann hamraði boltann í netið, algjörlega óverjandi fyrir Ómar markvörð heimamanna.

Eftir þetta áttu bæði lið ágæt færi, en KA var þó líklegra að jafna leikinn en Keflvíkingar að bæta við mörkum. En fleiri urðu mörkin ekki og 2-1 tap gegn Keflvíkingum staðreynd.

Í síðari hálfleiknum kom Þórður Arnar inn á fyrir Túfa, sem var á gulu spjaldi, Hallgrímur Mar, sem hefur legið í flensu í vikunni, kom inn á fyrir Ómar. Hallgrímur fór á vinstri kantinn en Bjarki færði sig yfir á þann hægri, Gunnar Örvar Stefánsson,sem er á öðru ári í öðrum flokki,  kom inn í framherjann þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum í stað Guðmundar Óla og Aci Milisic leysti Jóhann Helgason af síðustu fimm mínúturnar.

Næsti leikur KA í Lengjubikarnum er nk. föstudag kl. 20.00 í Boganum þegar Tindastóll kemur í heimsókn.