Sárt tap hjá 2. flokki gegn Þór

Mynd af thorsport.is tekin af Páli Jóhannessyni
Mynd af thorsport.is tekin af Páli Jóhannessyni
Það voru tæplega 200 manns sem mættu í Bogann í gær til að horfa á leik KA og Þórs í 32ja liða úrslitum Valitor bikars 2. flokks. Fyrirfram mátti búast við spennandi leik þrátt fyrir að KA vantaði 5 sterka menn. Leikurinn stóð alveg undir væntingum og var heilmikil skemmtun. 

KA menn byrjuðu betur og komust yfir á 25. mínútu með marki frá Ævari Inga Jóhannessyni, en hann þykir mikið efni og er á elsta ári í þriðja flokki. Ævar átti eftir að koma meira við sögu í leiknum.

Þórsarar létu ekki markið á sig fá og blésu til sóknar og uppskáru mark mínútú síðar með marki frá Alexander Hallgrímssyni. Eftir þetta voru Þórsararnir sterkari og skoruðu annað mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks en þar var að verki Ingólfur Árnason og staðan því 2-1 í hálfleik. Í seinni hálfleik komu Þórsarar sterkari inn og skoruðu mark og komust í 3-1 á 47. mínútu með öðru marki frá Alexander Hallgrímssyni.

En KA-menn stigu upp og Ævar Ingi skoraði annað mark sitt og annað mark KA á 58. mínútu og KA-menn aftur inn í leiknum. Það var svo á 65. mínútu sem nýliðinn Gunnar Örvar Stefánsson, sem kom frá Haukum fyrir stuttu, en er KA-maður að upplagi, skoraði í tómt markið eftir að Hjörtur Þórisson hafði rekið góðan spotta og sent á Gunnar sem átti ekki í erfiðleikum með að skora og staðan allt í einu 3-3. 

Eins og sönnum nágrannaslag sæmir var mikil harka í leiknum og alls fóru 8 gul spjöld á loft og þar af 2 á Hjört Þórisson og þar með rautt, en bæði spjöldin komu í uppbótartíma.

Í títtnefnudum uppótartíma skoruðu Þórsarar sigurmarkið á 93. mínútu, en KA-menn fengu samt sem áður færi eftir markið þegar Kristján Freyr Óðinsson fékk dauðafæri fyrir opnu marki en skalli hans fór framhjá og lauk leik því 4-3 fyrir Þór.

Næsti leikur KA er heimaleikur gegn Val í Boganum á þriðjudaginn og eru allir hvattir til að mæta.