Þegar KA komst í bikarúrslitin árið 2001

Það voru ófáir KA menn í stúkunni
Það voru ófáir KA menn í stúkunni

KA lék í 1. deildinni árið 2001 en náði með góðri spilamennsku að tryggja sér sæti í deild þeirra bestu, ekki nóg með að hafa komið sér upp um deild þá komst KA liðið einnig alla leið í úrslitaleikinn í Bikarkeppni KSÍ eftir að hafa slegið út sterka andstæðinga á borð við FH og Keflavík. Andstæðingarnir í úrslitaleiknum voru Fylkismenn sem höfðu misst af Íslandsmeistaratitlinum eftir gott sumar og höfðu slegið út KR, Grindavík og ÍA í leið sinni í úrslitin.

Hér má sjá upphitun fyrir leikinn en rætt er við fyrirliðana þá Þorvald Makan Sigbjörnsson og Finn Kolbeinsson. Kjartan Daníelsson og Gunnar "Gassi" Gunnarsson framkvæmdastjórar félaganna ræða einnig málin áður en Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfari gefur sína skoðun á leiknum.

Hér má svo sjá öll mörkin og helstu færin í leiknum eftirminnilega

Hreinn Hringsson kom KA yfir á 34. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf frá Dean Martin og var staðan 1-0 þegar flautað var til hálfleiks. Sverrir Sverrisson jafnaði hinsvegar metin á 49. mínútu eftir smá barning í vítateig KA manna.

Þorvaldur Makan Sigbjörnsson var felldur af Kjartani Sturlusyni og KA fékk því vítaspyrnu. Hreinn Hringsson skoraði og kom KA aftur yfir. En Árbæingar gáfust ekki upp og Ólafur Ingi Stígsson jafnaði eftir hornspyrnu og staðan því jöfn 2-2.

Framlengja þurfti leikinn en lítið markvert gerðist í framlengingunni og fór leikurinn því alla leið í vítaspyrnukeppni. Hún fór á þessa leið:

Sverrir Sverrisson, Fylkir, skorar 0-1
Hreinn Hringsson, KA, skorar 1-1
Pétur Björn Jónsson, Fylkir, skorar 1-2
Hlynur Jóhannsson, KA, skorar 2-2
Hreiðar Bjarnason, Fylkir, skorar 2-3
Kristján Sigurðsson, KA, skorar 3-3
Gunnar Þór Pétursson, Fylkir, skorar 3-4
Þorvaldur Örlygsson, KA, skorar 4-4
Sævar Þór Gíslason, Fylkir, skorar 4-5
Dean Martin, KA, brennir af 4-5

Það voru því Fylkismenn sem hömpuðu bikarmeistaratitlinum árið 2001.

Byrjunarlið KA:
Árni Kristinn Skaftason (markvörður), Ívar Bjarklind, Ásgeir Már Ásgeirsson, Dean Edward Martin, Slobodan Milisic, Kristján Örn Sigurðsson, Steinn Viðar Gunnarsson, Þorvaldur Örlygsson, Þorvaldur Makan Sigbjörnsson (fyrirliði), Hreinn Hringsson og Steingrímur Örn Eiðsson.

Varamannabekkur KA:
Hannes Rúnar Hannesson, Sigurður Skúli Eyjólfsson, Róbert Ragnar Skarphéðinsson, Hlynur Jóhannsson og Elmar Dan Sigþórsson.

Þorvaldur Örlygsson var spilandi þjálfari KA en honum til aðstoðar var Erlingur Kristjánsson.

Þjálfari Fylkis á þessum tíma var góðkunningi okkar hann Bjarni Jóhannsson.