Kvennalið Þórs/KA/Hamranna í 2. flokki varð í dag Bikarmeistari eftir að hafa lagt Íslandsmeistarana í FH 2-1 í mögnuðum úrslitaleik á Þórsvelli. Margir reiknuðu með sigri FH í leiknum enda liðið Íslandsmeistari og hafði unnið báðar viðureignir liðanna í sumar, en stelpurnar í Þór/KA/Hömrunum hafa staðið sig vel í sumar og enduðu í 2. sæti deildarinnar og þær ætluðu sér svo sannarlega sigur í dag.
Erna Guðrún Magnúsdóttir kom gestunum í FH yfir á 40. mínútu og var staðan 0-1 þegar flautað var til hálfleiks. Okkar stelpur reyndu hvað þær gátu í síðari hálfleik til að jafna metin og það tókst loks á 70. mínútu þegar Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði laglegt mark með öflugu skoti fyrir utan teig.
Þrátt fyrir fínar tilraunir beggja liða urðu mörkin ekki fleiri í venjulegum leiktíma og þurfti því að framlengja leikinn. Stuttu fyrir lok fyrri framlengingar var Oddný aftur á ferðinni þegar hún náði boltanum við hliðina á teignum, kom sér framhjá varnarmanni FH og skoraði úr frekar þröngu færi innan teigs, staðan allt í einu orðin 2-1!
FH stelpurnar reyndu allt hvað þær gátu til að jafna metin á ný en okkar stúlkur voru vandanum vaxnar og stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar. Frábær árangur hjá þeim og ótrúlega gaman að titillinn skyldi vinnast norður á Akureyri, til hamingju Þór/KA/Hamrarnir!