Þór/KA Íslandsmeistari í knattspyrnu 2012!

Sameiginlegt lið Þórs og KA í mfl. kvenna gerði sér lítið fyrir í kvöld og gjörsigraði Selfyssinga með níu mörkum gegn engu og sigldi Íslandsmeistaratitli í höfn - þeim fyrsta sem kvennalið á Akureyri vinnur. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, tók við Íslandsbikarnum úr hendi Geirs Þorsteinssonar, formanns KSÍ, á Þórsvelli í kvöld við gríðarlegan fögnuð mikils fjölda Akureyringa sem lögðu leið sína á völlinn í kvöld til þess að hylla stelpurnar.

Stelpurnar í Þór/KA hafa sýnt mikinn styrk í leik sínum í allt sumar og uppskorið samkvæmt því Íslandsmeistaratitilinn þegar einni umferð í Pepsídeild kvenna er ólokið.

Allir leikmenn Þórs/KA, þjálfararnir Jóhann Kristinn Gunnarsson og Siguróli Kristjánsson, kvennaráð Þórs/KA með Nóa Björnsson í broddi fylkingar, aðrir aðstandendur liðsins og Akureyringar allir; innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn - þetta er frábær og verðskuldaður árangur!