Þór/KA: Tap í fyrsta heimaleik, stelpur fara á lán til Völsungs

Stelpurnar í Þór/KA léku sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í gær laugardag. Stelpurnar guldu afhroð í leiknum en ÍBV sigraði með 5 mörkum gegn engu. Í samtali við thorsport.is viðurkenndi Viðar Sigurjónsson að þessi úrslit væru niðurlæging.  Hann benti þó á að liðið hafi verið meira með boltann, fengið mun fleiri hornspyrnur og að leikmönnum ÍBV hafi nokkrum sinnum tekist að bjarga á línu. 
Hann hafði þó ekki skýringar á reiðum höndum, leggst væntanlega undir feld, skoðar leikinn og leitar svara fyrir næsta leik liðsins, sem verður gegn Grindavík á útivelli sunnudaginn 22. maí kl. 16.00.

Í öðrum fréttum af sameiginlegu liði Þórs og KA er það helst að frétta að leikmennirnir Elva Marý Baldursdóttir og Íunn Eir Gunnarsdóttir hafa verið lánaðar til Völsungs í sumar til að öðlast frekari leikreynslu.


Nýtt, glæsilegt, merki Þór/KA!