Þrír leikmenn ganga til liðs við KA (staðfest)

Hafþór í leik á móti 2.fl KA
Hafþór í leik á móti 2.fl KA

Fréttir síðustu vikna af leikmannamálum hingað til hafa verið á þann veginn að leikmenn séu að fara frá félaginu. Nú hinsvegar skiptum við um gír en KA er búið að fá þrjá stráka á láni til félagsins. Þessir strákar koma frá Breiðablik og FH.

Í dag gengu þrír leikmenn til liðs við KA á lánssamningum frá Íslandsmeisturum Breiðabliks og FH, sem
varð í öðru sæti Pepsídeildar á síðasta keppnistímabili. Þetta eru Blikarnir Elvar Páll Sigurðsson og Ágúst Örn Arnarson og FH-ingurinn Hafþór Þrastarson. Þeir þremenningar eru komnir með leikheimild með KA og munu koma við sögu þegar KA-menn taka á móti Íslandsmeisturum Blika í Lengjubikarnum í Boganum nk. sunnudag kl. 13.

 

Miðvörðurinn Hafþór Þrastarson er fæddur 1990. Þrátt fyrir að vera ungur að árum hefur hann þegar öðlast umtalsverða reynslu í efstu deild. Þannig spilaði hann 11 leiki með FH í Pepsídeildinni, VÍSA- bikarnum og Meistarakeppni KSÍ á síðasta keppnistímabili.

 

Ágúst Örn Arnarson er fæddur árið 1991. Hann er framherji og var á láni hjá Fjarðabyggð árið 2009 og spilaði þá 13 leiki með liðinu í 1. deildinni og skoraði 4 mörk. Á síðasta keppnistímabili spilaði hann með öðrum flokki Breiðabliks og var iðinn við markaskorun – skoraði meðal annars þrennu gegn KA.

 

Elvar Páll Sigurðsson er sömuleiðis fæddur árið 1991. Hann er framliggjandi miðjumaður og spilaði með öðrum flokki Breiðabliks á síðasta keppnistímabili,sem lenti í öðru sæti Íslandsmótsins, og var sömuleiðis iðinn við markaskorun. Þá kom hann við sögu í tveimur leikjum Breiðabliks í Pepsídeildinni sl. sumar.

 

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari KA, er mjög ánægður með þennan liðsstyrk. "Já, ég er hæstánægður með að fá þessa stráka að láni. Þeir hafa gengið í gegnum akademíur tveggja bestu liðanna á Íslandi í dag og eru framtíðarmenn í þeim báðum. Hafþór kom mjög sterkur inn í Pepsi deildina með FH í fyrra og stóð sig feykivel. Ágúst Örn og Elvar Páll eru spennandi sóknarmenn sem Blikar binda vonir við.  Báðir voru lykilmenn í mjög sterku 2.flokksliði þeirra sem var hársbreidd frá því að vinna deildina sl. haust. Í mínum huga auka þessir strákar breiddina í okkar liði og það verður mjög spennandi að sjá hvernig þeir koma út hjá okkur," segir Gunnlaugur.