Íslandsmótið hjá 2.flokk er hálfnað en liðið leikur í B-deild eftir sárt fall síðasta haust, gengi liðsins hefur verið upp og niður og liðið sýnt frábæra takta inná milli til að mynda sigraði liðið ÍR efsta lið deildarinnar þá 3-0 á útivelli en engu að síður situr liðið í 8.sæti deildarinnar með 8 stig en 10 lið skipa deildina.
Varnartröllið gamalkunna Slobodan Milisic þjálfar liðið og hefur gert undanfarin ár og honum til halds og trausts er Steingrímur Örn Eiðsson sem er þekktur fyrir baneitraðan vinstri fót.
Lið 2.flokks er að mestu skipað drengjum á yngsta ári flokksins eða sem eru fæddir 1995 og er þetta því viðunandi árangur eftir því en bæði árgangar 93 0g 94 eru frekar litlir og hafa því nokkrir leikmenn fæddir 1996 fengið tækifæri og nýtt það vel.
Kristján Freyr Óðinsson er markahæsti maður liðsins með 6 mörk í 7 leikjum en Kristján hefur aldrei getið af sér gott orð fyrir framan markrammann fyrr en nú í sumar og var hann verðlaunaður fyrir góða frammistöðu með því að koma inná í 5-1 sigir meistaraflokks gegn ÍR á laugardag en Kristján er einn mikilvægasti maður liðsins ásamt Serbanum knáa Aksentije Milisic sem einnig fékk tækifæri gegn ÍR og hefur getið af sér mjög gott orð í sumar. Þá er framherjinn Gunnar Örvar Stefánsson, sem komið hefur við sögu í nokkrum mfl leikjum í sumar, gríðarlega mikilvægur fyrir liðið en Gunnar þykir einkar efnilegur framherji.
Fannar Hafsteinsson ver mark liðsins en hann þarf lítið að kynna, hann er eitthvað mesta efni sem við KA menn höfum alið af okkur í langan tíma og var hann síðastliðna viku með U19 landsliði íslands í Svíþjóð á littlu vináttumóti og byrjaði hann fyrstu tvö leiki liðsins en þurfti frá að hverfa vegna meiðsla í nára en Íslenska liðið sigraði mótið.
Nú eru 9 leikir eftir hjá liðinu og vonandi að þeir nái að hala inn stium seinni hluta mótsins og hífi sig upp töfluna.
Næsti leikur er 9.ágúst gegn Selfoss/Árgborg á Akureyrarvelli 9.ágúst klukkan 19:00