Á morgun er fyrsti leikur annars flokks á tímabilinu þegar FH-ingar koma í heimsókn og leika gegn okkar mönnum í Boganum kl. 18:00.
Liðið leikur í A-deild Íslandsmótsins og einnig í VISA-bikarnum. Þjálfari liðsins er Örlygur Þór Helgason en hann tók
við flokknum í vetur.
Heimasíðan heyrði í einum af lykilmönnum liðsins, Hauki Hinrikssyni, en hann leikur sem miðvörður og er á elsta ári. Hann lék sinn
fyrsta byrjunarliðsleik með meistaraflokki í vor gegn Fram í æfingaleik en hann kom nokkuð við sögu í Soccerademótinu í vetur með
meistaraflokk.
,,Bara ágætlega, við erum með fínan hóp og það er bara undir okkur komið að sýna hvað við getum.
Þetta er sterk deild og margir erfiðir leikir svo að ekkert verður gefið í þessu," sagði Haukur um það hvernig honum litist á
sumarið framundan.

Fyrsti leikur liðsins er eins og áður segir gegn FH en þeir lentu í 6. sæti deildarinnar í fyrra, sæti fyrir ofan KA og því ljóst
að um hörkuleik verður að ræða.
,,Ég er bara mjög spenntur fyrir því að taka á þeim og
sjá hvar við stöndum miðað við liðin í Reykjavík. Við verðum bara að mæta ákveðnir til leiks og reyna að ná
þremur stigum því það er mikilvægt að byrja vel."
Haukur segir að þeir hafi ekki sett sér neitt markmið í sumar um að ná ákveðnu sæti.
,,Okkar markmið er
einfaldlega að taka hvern leik fyrir í einu og reyna að ná eins mörgum stigum og mögulegt er í sumar."
,,Ég vonast bara til að sem flestir KA-menn standi við bakið á okkur í sumar og reyni að sjá sér fært um
að mæta á leiki með okkur," sagði Haukur Hinriksson að lokum.
Við óskum strákunum góðs gengis í leiknum gegn FH annaðkvöld og einnig í sumar.
Vefsíða annars flokks